AFLÝST — Höfundakvöld með LARS SAABYE CHRISTENSEN
19:30
AFLÝST
Höfundakvöld með LARS SAABYE CHRISTENSEN í Norræna húsinu
þriðjudaginn 17. janúar kl. 19:30
Frá haustinu 2015 hefur Norræna húsið staðið mánaðarlega fyrir höfundakvöldum með spennandi norrænum höfundum. Að þessu sinni er gestur höfundakvöldsins rithöfundurinn Lars Saabye Christensen frá Noregi. Hér fyrir neðan getur þú fylgst með viðburðinum í beinni útsendingu.
Sigurður Ólafsson verkefnastjóri í Norræna húsinu stýrir umræðu sem fer fram á skandinavísku. Aðgangur er ókeypis.
Streymi
Lars Saabye Christensen (1953) er norskur rithöfundur en bækur hans hafa verið þýddar á yfir 30 tungumál. Sem höfundur er Lars Saabye Christensen fjölhæfur en fyrir utan skáldsagnaskrif hefur hann einnig sent frá sér smásögur, barnabækur, leikrit og sjónvarpshandrit ásamt því að þýða verk erlendra höfunda og skrifa söngtexta en frumraun hans, ljóðabókin Historien om Gly, kom út árið 1976. Lars Saabye Christensen hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002 fyrir skáldsöguna Hálfbróðurinn en í henni er fjallað um gleði og sorgir fjölskyldu í Osló, heimaborg höfundar. Bókin er sögð æviverk hans enda tók það hann meira en tuttugu ár að semja hana. Gerðir voru sjónvarpsþættir eftir bókinni árið 2013 sem sýndir voru á öllum Norðurlöndunum og víðar. Í Noregi hefur skáldsaga hans Bítlarnir (Beatles) sem kom út árið 1984 hlotið mikið lof og þykir skyldulesning hjá mörgum. Bítlarnir er þroskasaga fjögurra vina sem alast upp í Osló á 7. áratug síðustu aldar þar sem tónlist Bítlanna er sem rauður þráður í gegnum söguna og sem lýkur með því að Norðmenn segja „nei“ við inngöngu í Evrópusambandið. Á íslensku hafa komið út eftir höfundinn bækurnar Hálfbróðirinn (2003), Hermann (2005) og Módelið (2007).
Nýjasta skáldsaga Lars Saabye Christensen Magnet kom út 2015 en í allt hefur höfundur sent frá sér 19 skáldsögur ásamt ógrynni af öðru efni.
Viðburðurinn byrjar kl. 19:30 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.
Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu.