Heimur háður olíu


12:15

Heimur háður olíu

27. nóvember kl. 12:15 í hátíðarsal Norræna hússins

Dr. Kjell Aleklett, prófessor emeritus í eðlisfræði við Uppsalaháskóla, flytur fyrirlestur sem ber yfirskriftina Heimur háður olíu (A world addicted to oil) föstudaginn 27. nóvember kl. 12:15-13:15 í sal Norræna hússins.

Aleklett er sérfræðingur á heimsvísu í hámarksolíuframleiðslu (Peak Oil) sem vísar til þess að þar sem við lifum á einni jörð eru náttúruauðlindir okkar takmarkaðar og því mun framleiðsla á olíu ná hámarki. Sýnt hefur verið fram á að hámarksframleiðsla átti sér stað árið 2006. Þetta þýðir að þótt enn sé helmingur af olíuauðlindum jarðar til staðar er það er sá hluti olíunnar sem erfitt og dýrt er að vinna.

Dr. Aleklett er prófessor emeritus í eðlisfræði við Uppsalaháskóla þar sem hann leiddi rannóknahóp um orkukerfi heimsins (Uppsala Global Energy Systems Group (UGES)). Hann lauk doktorsprófi í kjarneðlisfræði frá Gautaborgarháskóla.

Eftir að hafa unnið á Sænsku náttúrufræðistofnuninni í Studsvik, sem sérhæfir sig í orkurannsóknum, flutti hann sig um set á Lawrence Berkeley National Laboratory við Berkeley-háskóla í Kalíforníu. Hann var síðar ráðinn til Uppsalaháskóla þar sem hann hefur verið prófessor frá árinu 1986.

Sem ráðgjafi fyrir orkuráðuneyti Svíþjóðar fékk hann áhuga á orkuframboði heimsins og skipti og breyttust þá áherslur hans frá kjarneðlisfræði yfir í rannsóknir á framboði af kolum, olíu og gasi. Ásamt breska olíujarðeðlisfræðingnum Colin Campbell skipulagði hann fyrstu alþjóðlegu vinnustofuna um dvínun olíu í Uppsölum árið 2002 og þar voru Samtök um rannsóknir á hámarksolíuframleiðslu (Association for the Study of Peak Oil (ASPO)) stofnuð. Kjell Aleklett var fyrsti forseti alþjóðlegrar deildar ASPO (ASPO International).

Fyrirlestur Kjell Aleklett er á vegum Jarðvísindadeildar, námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræði og Stofnunar Sæmundar fróða og er öllum opinn.