Græni Lundinn


18:00-19:30

RIFF heiðrar Ómar Ragnarsson fyrir ævistarf sitt við kvikmyndun á náttúru landsins með því að veita honum heiðursverðlaunin Græna lundann. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við opnun ljósmyndasýningar Landverndar „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ í Norræna húsinu sem haldin er í tilefni af 50 ára afmæli félagsins.

 

 

Ómar Ragnarsson þekkja flestir Íslendingar af sjónvarpsskjánum þar sem hann hefur í marga áratugi fjallað um náttúru landsins með einstökum myndum sem hann tekur úr flugvélinni sinni. Hann er líka þekktur sem skemmtikraftur og hefur ósjaldan kitlað hláturtaugar landsmanna með söng og sprelli. Til fjölda ára hefur hann helgað sig baráttunni fyrir verndun náttúrunnar og hefur af fórnfýsi lagt á sig ómælda vinnu í þeirri baráttu. Þjóðin á Ómari mikið að þakka því án hans er ekki víst að við áttuðum okkur á þeirri auðlind sem felst í ósnortinni náttúru.

Er þetta í fyrsta skipti sem þessi umhverfisverðlaun RIFF eru veitt. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, afhendir verðlaunin. Eftir afhendinguna verða léttar veitingar og tækifæri til þess að skoða ljósmyndasýninguna. RIFF, Landvernd og Norræna húsið vonast til þess að sjá ykkur við þetta tilefni.

Norræna húsið býður upp á léttar veitingar.

Vinsamlegast tryggið ykkur frímiða hér!

Dagskrá Riff í Norræna húsinu