Frelsi, menning, framför
16:30 - 18:30
Frelsi, menning, framför
Bókakynning í Norræna húsinu þriðjudaginn 5. desember kl. 16:30
Umræður um bókina, Frelsi, menning, framför: Um bréf og greinar Jóns Halldórssonar, milli höfundar, Úlfars Bragasonar, rannsóknarprófessors á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og fræðilegs ritstjóra bókarinnar, Guðmundar Hálfdanarsonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands stjórnar bókarkynningunni. Bókin kemur út hjá Háskólaútgáfunni í desember.
Jóns Halldórssonar (1838–1919) fluttist frá Stóruvöllum í Bárðardal vestur um haf til Bandaríkjanna 1872 og bjó lengst af í Nebraska. Frelsi, menning, framför fjallar um þær heimildir sem Jón lét eftir sig: dagbók, æviágrip, bréf, greinar, kvæði og ljósmyndir. Bókin gerir grein fyrir þeim hugmyndum sem vesturfararnir höfðu um Ameríku, þær forsendur, sem Jón Halldórsson taldi sig hafa til frambúðar á Íslandi, og væntingar sem hann hafði með því að létta heimdraganum. Fjallað er um bréfaskriftir Jóns, áhrif sem hann gæti hafa haft til þess að ættingjar hans og vinir fylgdu í kjölfar hans og samskipti hans við landa sína vestanhafs. Þá er rætt hvernig Jón Halldórsson mat lífshlaup sitt á gamals aldri, aðlögun hans að nýjum heimkynnum og viðhorf hans til gamla landsins.
Frítt inn og allir velkomnir!