FRAMTÍÐIN ENDURSKRIFUÐ #2


19:30
Salur
Aðgangur ókeypis

Hvernig getum við ímyndað okkur og skapað sjálfbæra framtíð fyrir menn og náttúru?

HORFA Í BEINU STREYMI

Nú, meira en nokkurn tímann áður, er þörf á frásögnum sem lýsa annarskonar hugsanar- og lifnaðarháttum. Félagslegt ímyndunarafl, drifið áfram af áhrifaríkum sögum, gæti vel verið lykildrifkraftur í grænum og réttlátum umskiptum.

Sögur sem sem ýja að yfirvofandi heimsendi og sýna framtíð mannkynsins frá myrku og dystópísku sjónarhorni eru allsráðandi í hverskyns skáldskap. En þegar litið er til þeirra miklu og ógnvænlegu áskorana sem við stöndum frammi fyrir – loftslagshamförum, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika, stríði og hnignun lýðræðis – kemur kannski ekki á óvart að margir höfundar hallist að dómsdagsspám.

En er hægt að ímynda sér aðra og betri framtíð? Kannski ef við horfumst í augu við þá staðreynd að þessi vandamál verða ekki leyst með sama hugarfari og skapaði þau, ekki með tæknilegum lausnum og rafbílum einum og sér, heldur með breyttu viðhorfi og auðmýkt gagnvart stöðu okkar í hringrás lífsins. Hvað ef það áhrifaríkasta sem við getum gert er einfaldlega að gera minna, og þar með gefa náttúrunni aukið pláss og færi til að endurnýja sig?

Norræna húsið býður í þverfaglegt samtal þar sem hin sænska Pella Thiel, vistfræðingur og meðstofnandi samtakanna End Ecocide Sweden, og hin dansk-íranska Shëkufe Tadayoni Heiberg, rithöfundur, umhverfisaðgerðasinni og útgefandi, munu takast á við þessar stóru spurningar. Sverrir Norland, þjóðkunnur rithöfundur, þýðandi og útgefandi, mun stýra umræðunum.

Pella Thiel er vistfræðingur, fyrirlesari og aðgerðarsinni. Hún tók þátt í að stofna samtökin Swedish Transition Network, End Ecocide Sweden og Save the Rainforest Sweden, og auk þess er hún sérfræðingur í „Harmony with Nature“ á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hún kennir einnig vistsálfræði og er hluti af félagasamtökunum Lodyn um vistsálfræði/list/aktívisma. Árið 2019 hlaut Thiel titilinn „Umhverfishetja ársins“ í Svíþjóð.

Shëkufe Tadayoni Heiberg (f. 1987) er persnesk-danskt ljóðskáld, rithöfundur og þýðandi. Hún er með meistaragráðu í bókmenntum frá Kaupmannahafnarháskóla og rekur danska forlagið Uro. Shëkufe hefur gefið út fjölda bóka og þýðinga. Nýjasta útgáfa hennar, «Nødder» (2022), er útópísk skáldsaga sem dregur í efa viðurkenndar kenningar um tunglið og gefur nýja vinkil á bæði tilvist tunglsins og tilkomu jarðar. Loftslags- og umhverfiskrísan er áberandi þema í skáldskap Shëkufe. Í skrifum sínum varpar hún ljósi á samspil manna og annarra tegunda og leggur áherslu á að við verðum að gefa náttúrunni aukið rými til þess að koma í veg fyrir verstu mögulegu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Viðburðurinn verður haldinn á ensku. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi. Léttar veitingar verða í boði og hægt verður að kaupa drykki frá SÓNÓ Matseljum.

Þetta er seinni viðburðurinn í seríunni „Framtíðin endurskrifuð.“ Sá fyrri fór fram í nóvember 2022 og var samtal á milli Skúla Skúlasonar líffræðings og Azucenu Castro, P.hd. í spænsku og bókmenntum. Hægt er að horfa á upptöku af viðburðinum hér.