FJÖLSKYLDUSTUND: Nýtt kort af Norræna húsinu eftir Rán Flygenring
13:00 - 15:00
Glænýtt kort myndhöfundarins Ránar Flygenring verður aðal viðfangsefni fjölskyldustundar næsta laugardags. Kortið sýnir á skemmtilegan hátt virkni Norræna hússins á efri og neðri hæð ásamt því að draga fram útisvæðið og fuglana sem er algengast að finna á fuglaverndunarsvæðinu fyrir utan.
Litablöð byggð á nýja kortinu verða á staðnum og hægt verður að lita útisvæðið, neðri hæð hússins og efri hæð. Á litablöðin er hægt að breyta um lit á Norræna húsinu – prófa til dæmis að hafa það í öllum regnbogans litum!
Ásamt korti og litablöðum verða einnig auð blöð þar sem gestir eru hvattir til að teikna upp það sem þeim finnst vanta í Norræna húsið. Hægt er að teikna við húsið eða teikna upp auka hús á útisvæðinu sem þjóna ýmsum tilgangi. Vantar fleiri fuglahús? Kofa? annað gróðurhús?
Hægt er að fara í rannsóknarleiðangur um húsið og útisvæðið með nýja kortið til að fá hugmyndir.
Allir sem mæta fá nýja kortið af húsinu og litablöð hönnuð af þekkta mynd höfundinum Rán Flygenring.
Fjölskyldustundin er ókeypis og öll velkomin!
Kennari á staðnum verður Hrafnhildur Gissurardóttir fræðslufulltrúi Norræna hússins og kennt verður á íslensku og ensku.