Að ná að skrifa og njóta þess líka að lifa


17:00-19:00
Alvar Aalto
Aðgangur ókeypis

Örnámskeið í skapandi skrifum með Sverri Norland  fyrir 12 ára og eldri

Skráning með því að senda nafn og aldur til hrafnhildur@nordichouse.is

Mýtan um þjáða listamanninn er lífseig og þá ekki síst hugmyndir okkar um þjakaða rithöfundinn sem þarf helst að svelta, engjast um í ástarsorg, gleyma að skila inn skattaskýrslu og búa í leku húsnæði með myglu í veggjunum til að ná að skrifa eitthvað af viti. En hvað ef þetta er bara bull? Er ekki miklu betra að njóta lífsins, skrifa saddur og sæll og helst í húsnæði sem lekur ekki?

Í örnámskeiðinu „Að ná að skrifa og njóta þess líka að lifa“ veitir rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Sverrir Norland ýmis hvetjandi ráð sem hjálpa upprennandi höfundum vinna úr hugmyndum sínum, leggja ekki árar í bát og þróa aðferðir til að halda dampi á ritvellinum. Áhersla er lögð á að hafa ánægju af því að vera til, skerpa athyglisgáfuna og beita „lögmálinu um lágmarksfyrirhöfn“ til að hámarka sköpunargleði sína og afköst. Með öðrum orðum: Hafa gaman af því að skrifa. Þá kemur hitt af sjálfu sér.

Einkum verður lögð áhersla á að skrifa um það sem við a) dásömum, b) fyrirlítum, þ.e. á mikilvægi þess að hafa sterkar skoðanir á viðfangsefninu hverju sinni. Sverrir fer enn fremur yfir ýmsar aðferðir sem hann hefur þróað sjálfur í eigin ritstörfum og annarri skapandi vinnu (mikilvægi þess að læra á eigið ímyndunarafl; uppbyggingu spennu í texta; muninn á sögu og plotti; sagnagerð sem væntingasköpun; mikilvægi þess að spegla og bergmála í frásögn; hvernig nota má „töfraduft“ til að glæða texta auknu lífi; persónusköpun). Þá spreyta nemendur sig á að skrifa stutta texta og fá viðbrögð, bæði frá kennara og öðrum þátttakendum.

Námskeiðið er fyrir fólk á öllum aldri (lágmarksaldur: 12 ára) og er tilvalið fyrir þá sem skrifa í frístundum, þá sem langar að að byrja að skrifa, þá sem skrifuðu einu sinni en vilja tendra aftur neistann – og eins fyrir mæðgur, mæðgin, feðga, feðgin, elskendur, vini, saumaklúbba, hljómsveitir …

Eftirminnilegt og aðgengilegt námskeið sem veitir innblástur og virkjar sköpunargleði.
Námskeiðið fer fram á íslensku

Smiðjan er haldin í tilefni af Norrænni bókmenntaviku og hefst á Degi íslenskrar tungu.

Sverrir Norland hefur sinnt margbreytilegum störfum á sviði bókmennta og lista. Hann hefur fengist við skrif, þýðingar, fyrirlestra og bókmenntagagnrýni og hefur gefið út ljóðabækur, smásögur og skáldsögur í fullri lengd ásamt því að vera reglulegur gagnrýnandi hjá Kiljunni, stýra hlaðvarpinu Bókahúsið (hlaðvarp Forlagsins) og útvarpsþættinum Upp á nýtt (Rás 1). Sverrir rekur útgáfuna AM forlag ásamt konu sinni, Cerise Fontaine. Ellefta bók hans, Stríð og kliður, vakti athygli fyrir persónulega nálgun að stórum málefnum samtímans: tækni, sköpun og loftslagsvánni.

Sjá nánar:  sverrirnorland.com og amforlag.com