Björgvin Gítarkvartett

Yndislegir gítartónar frá Noregi


20:00

Björgvin Gítarkvartett

hefur spilað saman síðan haustið 2013 og komið fram á tónlistarhátiðum eins og Festspillene í Bergen. Þeir hafa einnig skipulagt tónleika á minni stöðum í Vestur Noregi, og fóru í tónleikaferðalag á svæðinu veturinn 2014. Tónlistin, sem þeir spila, spannar frá endurreisn til nútímatónlistar, og tónlistin er ýmist umskrifuð frá öðrum hljóðfærum eða samin fyrir gítarkvartett.

Öystein Magnús Gjerde er 23 ára og eini Íslendingurinn í kvartettinum. Hann kemur frá Fellabæ á Fljótsdalshéraði. Hann lærði fyrst á klassískan gítar heima á Íslandi hjá Torvald Gjerde, Matti Saarinen og Steingrími Birgissyni. Árið 2010 flutti hann til Noregs og lærði tónlist í Toneheim Folkehøgskole, lýðháskóla við Hamar, og var Reidar Edvardsen gítarkennarinn hans þar. Ári seinna byrjaði hann á bachelornámi í Grieg-akademíunni í Bergen, sem hann lauk núna í ár, fyrsta árið hjá Njål Vindenes og síðustu þrjú árin hjá Stein-Erik Olsen.

Thomas Schoofs Melheim er 24 ára gamall frá Lærdal í Vestur-Noregi. Hann lærði á gítar hjá Øystein Eide í Menntaskólanum í Firda 2007-2009, og hjá Stein-Erik Olsen og Egil Haugland í Grieg-akademínuni í Bergen 2010-2015, þar sem hann lauk bachelornámi núna í júní. Hann hefur bæði komið fram í kammerhljómsveit og sem einleikari á mörgum stöðum í Vestur-Noregi. Kammertónlist er ástríða hans í tónlist, og hann stefnir á að spila meira af henni í framtíðinni.

Morten Andre Larsen er 23 ára frá litlum bæ í Norður-Noregi sem heitir Havøysund. Hann byrjaði að læra á klassískan gítar fyrir 10 árum, 13 ára gamall, hjá Alfred Stabell. Seinna lærði hann hjá Svein Hugo Sørensen í Menntasólanum í Alta frá árinu 2008. Árið 2011 byrjaði Morten á bachelor námi í Grieg-akademíunni í Bergen, fyrsta árið hjá Njål Vindenes og síðustu árin hjá Stein-Erik Olsen. Í ár kláraði hann bachelornámið og næsta haust mun hann byrja á mastersnámi í Bergen.

Dag Håheim er 25 ára gamall frá Skei og byrjaði nám á klassískan gítar hjá Øystein Eide, 15 ára gamall. Í dag er hann í mastersnámi í Grieg-akademíunni í Bergen, þar sem hann lauk bachelornámi árið 2014 með Stein-Erik Olsen og Egil Haugland sem kennara. Árið 2012/2013 lærði hann hjá Marco Tamayo í Universität Mozarteum í Salzburg, Austurríki. Hann hefur oft tekið þátt í Masterclass í Bergen og annarsstaðar með gítaristum eins og Pavel Steidl, Marcin Dylla, Odair Assad o.fl.