Árna Magnússonar fyrirlestur


17:00 - 19:00

Árna Magnússonar fyrirlestur

Árna Magnússonar fyrirlestur á fæðingardegi Árna Magnússonar verður haldinn í fimmta sinn 13. nóvember 2017 kl. 17:00

Marjorie Curry Woods er prófessor í ensku og almennri bókmenntafræði — Blumberg Professor of English, Professor of Comparative Literature, and University Distinguished Teaching Professor — við Texas-háskóla í Austin og hefur kennt þar frá árinu 2011.

Hún lauk B.A.-prófi í ensku frá Stanford-háskóla og M.A.- og doktorsprófi í miðaldafræðum frá Toronto-háskóla. Í fyrstu beindust rannsóknir hennar að skýringum við mikilvægt miðaldarit um mælskufræði, Poetria nova eftir Geoffrey frá Vinsauf, og hefur hún birt tvær bækur um efnið: An Early Commentary on the Poetria nova of Geoffrey of Vinsauf sem er útgáfa og þýðing á tveimur gerðum skýringanna og Classroom Commentaries: Teaching the Poetria nova Across Medieval and Renaissance Europe (sem hlaut árið 2010 bókaverðlaun Rhetoric Society of America).

Í seinni tíð hefur hún skoðað athugasemdir og skýringar við miðaldahandrit sem ætluð voru til kennslu á klassískum textum og eru niðurstöður væntanlegar í bókinni Weeping for Dido: Teaching the Classics in the Middle Ages, byggðri á Gombrich-fyrirlestrum sem hún flutti við Warburg Institute í Lundúnum árið 2014.

Marjorie Curry Woods hefur einkum áhuga á því hvernig kennarar á miðöldum lögðu áherslu á texta þar sem tilfinningar eru tjáðar, sérstaklega ræður sem lagðar eru kvenpersónum í munn. Næsta verkefni hennar verður að skoða hvernig nota megi söguleg rit sem voru æfingar í að semja texta við kennslu bókmennta frá fyrri öldum. 

Hér má lesa frásögn Marjorie Curry Woods um tilurð þessa fyrirlestrar: 

Þegar ég hitti deildarstjóra handritasafns Princeton-háskóla og spurði hann hvort safnið geymdi einhver miðaldahandrit með bókmenntum fornaldar, svaraði hann: „Bara ljót.“ „Frábært,“ svaraði ég, „ég vinn einmitt með þannig handrit“. Í fyrirlestrinum mun ég skýra hvað við áttum við með „ljótum handritum“ og ræða hvað af þeim má læra. Þetta eru ekki fagurlega lýst skrauthandrit rituð á besta bókfell fyrir höfðingja eða preláta, heldur brúkshandrit rituð á afgangsskinn eða pappír, framleidd fyrir skólanema og háskólastúdenta, þ.e. þá sem lögðust yfir textana en ekki þau sem flettu þeim sér til skemmtunar. Fyrirlesturinn byggist á nýlegum rannsóknum mínum á handritum nokkurra klassískra texta (Eneasarkviðu Virgils, Achilleid eftir Statius og Ilias latina) en einnig eldri rannsóknum mínum á handritum Poetria nova eftir Geoffrey af Vinsauf, vinsælum miðaldatexta. Ég mun einkum beina sjónum að því sem er ritað á milli línanna (og á spássíurnar) og var ætlað að vekja með stúdentum kenndir til þess sem gerist í textanum, ekki síður en að hjálpa þeim að tileinka sér hann.