Arctic Concerts – Hallveig Rúnarsdóttir & Jóhannes Andreasen
20:30
Arctic Concerts er ný tónleikaröð í Norræna húsinu
Á fimmtudögum kl 20:30 í allt sumar
Arctic Concerts tónleikaröðin er ætluð áhugasömum ferðamönnum, ekki síður en íslenskum tónlistarunnendum sem vilja kynnast íslenskri og norrænni tónlist og flytjendum hennar, í einstakri nánd og vinalegu umhverfi.
Hallveig Rúnardóttir sópran söngkona og Jóhannes Andreasen píanóleikari frá Færeyjum, koma fram á tónleikum í Arctic Concerts röðinni í Norrænahúsinu, fimmtudagskvöldið 4. ágúst kl. 20.30. Þau munu flytja blandaða efnisskrá sönglaga, m.a. eftir Atla Heimi Sveinsson og Edvard Grieg en einnig tónlist frá Færeyjum þar á meðal eftir Trónd Bogason, einn af nánustu samstarfsmönnum Eivarar Pálsdóttur.
Hallveig er í hópi virtustu söngkvenna þjóðarinnar, hefur m.a. sungið fjölda hlutverka hjá Íslensku Óperunni auk ljóðatónleika, óratóríu og leikhúshlutverka. Í vor söng Hallveig burðarhlutverk í nýrri Færeyskri óperu, Ljós í Ljóði eftir Kristian Blak, í Norðurlanda húsinu í Þórshöfn en hélt jafnfram fjölda einsöngstónleika í tengslum við hina árlegu Summartóna hátíð. Þar kom hún fram með Jóhannesi Andreasen, víða á Færeyjum og í Þórshöfn, við frábærar undirtektir.
Jóhannes Andreasen er leiðandi píanóleikari og tónlistarmaður í Færeyjum. Hann nam við Tónlistarháskólann í Vínarborg og Yehudi Menuhin akademíuna í Sviss en var einnig í nokkur ár búsettur á Íslandi og virkur í tónlistarlífinu hér. Jóhannes leikur gjarnan einleik með Sinfóníuhljómsveit Færeyja, er meðlimur tónlistarhópsins Aldurbáran auk þess að halda tónleika og kenna í Færeyjum. Mörg Færeysk tónskáld s.s. Tróndur Bogason og Sunleif Rasmussen hafa skrifað fyrir Jóhannes og hann hljóðritað verk þeirra.
Aðgangseyrir: 2.500 kr.
Undir merki Arctic Concerts falla allir stílar og tónlistarstefnur; klassík, jazz, þjóðlög og fjölbreytt dægurtónlist. Vandaður flutningur og framsetning er aðalsmerki verkefnisins enda flytjendur úr fremstu röð einleikara, einsöngvara og hljómsveita.
07.7. KK söngvari/lagasmiður – blönduð tónlist
14.7. Arctic Broken Consort – blönduð tónlist
21.7. Sunna Gunnlaugsdóttir- jazz
28.7. Funi – þjóðlagatónlist
04.8. Hallveig Rúnarsdóttir & Jóhannes Andreasen – sönglög
11.8. Svavar Knútur – trúbador
18.8. Sölvi Kolbeinsson- jazz
25.8. Svafa Þórhallsdóttir- sönglög
Kvöldverður og tónleikar
Aalto Bistro býður upp á sérstakan matseðil fyrir tónleikana. Aalto Bistro er opið á fimmtudögum til kl. 21.30. bóka borð
Það er von okkar sem stöndum að Arctic Concerts að röðin verði kærkomin viðbót við menningarflóru landsins, gluggi inn í litríkan tónlistarheim norðursins.
Það er Tóney sem stendur að Arctic Concerts röðinni í samstarfi við Norræana húsið en faglegur stjórnandi er Guðni Franzson tónlistarmaður.
Málverk: Georg Guðni, 2001.