50 ára afmæli Norræna hússins
10-23
Norræna húsið fagnar 50 ára starfsafmæli sínu í ár og mun af gefnu tilefni bjóða landsmönnum í sannkallaða norræna menningarveislu laugardaginn 25. ágúst 2018
Boðið verður upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna með leikjum, lifandi tónlist, sánabaði, sögusýningu, matar smakki og margt margt fleira. Um kvöldið verður boðið upp á útitónleika með grænlensku popphljómsveitinni Nanook og norsku hip-hop stjörnunni Miss Tati. Frítt er inn á hátíðina og sala á mat og drykk verður í höndum matarvagna á svæðinu. Hátíðarhöldin hefjast kl. 10:00 með fríum morgunverði í stóru tjaldi fyrir utan Norræna húsið.
Kynnir og stjórnandi leikja er Sigyn Blöndal umsjónarmaður Stundinnar okkar
Dagskráin 25. ágúst
10.00– 11.30 Morgunverður fyrir alla í garðinum/tjaldinu
Hvernig er best að koma í veg fyrir matarsóun? Fyrirtækin Brauð og co. og Krónan sýna okkur eitt og annað.
10.30 – 14.00 Norrænir leikir undir stjórn Sigyn Blöndal, Fjölskyldujóga með Evu Dögg, Bíó, andlitsmálning, norskar skonsur of.
14.00– 16.00 Tónleikar – Ungt og hæfileikaríkt tónlistarfólk spilar á stóra sviðinu. RuGl, Gróa og Flóni.
16.00 – 16:15 Vígsla á nýrri bryggju í vatnsmýrinni sem er gjöf frá Reykjavíkurborg.
16.15 – 16.45 Nanook spila órafmangaðir á brúnni/gróðurhúsinu.
17.00 – 19:00 Barinn opnar í hátíðartjaldinu, Pub Quiz með Arnari Eggerti og Nordic Playlist
19.00 – 22.30 Tónleikar á stóra sviðinu – Nanook, Miss Tati og SEINT.
Kynnir kvöldins er tónlistarsérfræðingurinn Arnar Eggert Thoroddsen
Önnur afþreying
- Finnskt saunabað úti í garði – takið með sundföt og handklæði!!!
- Barnabíó í Norræna húsinu -Ronja Ræningjadóttir og Bróðir minn Ljónshjarta
- Sýningarsalur Innblásið af Aalto – Hönnun frá Finnlandi
- Black Box 50 minnigar – Það besta úr safni Norræna hússins
- Anddyri North of Normal – svipmyndir frá Norðurlöndunum.
- Matarvagnar Gastro truck, Rabbabari, ísbíllinn og Fish & chips Wagon
- AALTO Bistro veitingarstaður Norræna hússins
- Barnabókasafn föndur, spil, kubbar, búningar o.fl.
- Andlitsmálning fyrir alla konur, krakka og kalla
Tónleikar Norræna hússins verða haldnir á stóru sviði á túninu fyrir framan húsið
kl. 14:00 – 16:00
Fyrstar stíga á stokk ungar og upprennandi stjörnur Gróa, Flóni og RuGl.
RuGl spiluðu á lokaúrslitakvöldi Músiktilrauna árið 2016 og vakti athygli fyrir samspil og raddir. Meðlimir RuGL sækja innblástur sinn í mjúka og melódíska Indie tónlist og þykja textar sveitarinnar áleitnir. Hljómsveitin var stofnuð snemma árs 2016 af tveimur 14 ára stelpum úr vesturbænum í Reykjavík.
Flóni Er tvítugur rappari frá Reykjavík sem kom með hvelli inn í íslensku rapp-senuna með lögum sem trónuðu í efstu sætum Spotify listans hérlendis. Margir ungir rapparar eru að vekja athygli þessi misserin og hefur gróskan sjaldan verið meiri í rappheiminum á Íslandi.
Látið ykkur hlakka til að hlýða á Flóna sem þekktur er fyrir magnaða sviðsframkomu sína.
Hljómsveitina GRÓA skipa þær Fríða Björg Pétursdóttir, Hrafnhildur Einarsdóttir og Karólína Einarsdóttir. GRÓA varð til í tengslum við verkefnið Stelpur rokka og tóku þær þátt í Músíktilraunum í kjölfarið. Tónlist þeirra þykir „vel útsett og vel hljómandi“ eins og einn gagnrýnandinn orðaði það; hress og nýstárleg og hljómur hennar spennandi.
kl. 19.00 – 22.30
Seinni tónleikar Norræna hússins hefjast kl. 19:00. Þar koma fram grænlenska poppsveitin Nanook, norska hip hop stjarnan Miss Tati og íslenski raftónlistarmaðurinn SEINT.
Hljómsveitin Nanook er eitt helsta tónlistarundur sem komið hefur frá Grænlandi í seinni tíð. Með úthugsuðum tónsmíðum og útsetningum og ekki síst sem starfandi tónlistarfólk hafa meðlimir hennar skapað nýjan hljóm og stíl sem er í algjörum sérflokki í Grænlandi. Bræðurnir Frederik og Christian Elsner standa í framlínunni og eru mögnuð sjón þegar hljómsveitin flytur tónlist sína á stórum sviðum með Martin Zinck á trommur, Andreas Otte á bassa og Mads Røn á hljómborð. Hljómsveitin hefur slegið í gegn á Grænlandi, Danmörku, Ameriku og í Japan. Tónlist þeirra er rokkskotin og allir textar á grænlensku.
Miss Tati er fædd í Portúgal árið 1986 og er af angólskum uppruna. Hún ólst upp í borginni Setúbal en flutti seinna með fjölskyldu sinni til Bergen í Noregi. Í tónlistinni má greina sterk áhrif frá hiphop-tónlist, sálar-tónlist, fönki og R&B-tónlist. Hún hefur vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og hlotið lof gagnrýnenda um allan heim. Miss Tati hefur einstaklega heillandi sviðsframkomu, sterkan stíl og býður upp á kraftmikinn flutning á ný-sálar popptónlist sem allir geta dillað sér við.
SEINT er Framtíðarkennt electrónískt popp frá Reykjavík stofnað af Joseph Cosmo. Nýverið kom platan “The World is Not Enough“ út á spotify með góðum undirtektum. En það mun vera önnur platan í fullri lengd sem kemur frá verkefninu. Melankólískt andrúmsloft í bland í við mellódíur og fastan takt lýsir SEINT best.
Tóndæmi
Styrktar- og samstarfsaðilar
Norræna húsið er stoltur aðili að puls hópnum og hefur fengið fjármögnun frá Norræna menningarsjóðnum til að kynna lifandi norræna tónlist á Norðurlöndum
Facebook viðburður