Fyrir nákvæmlega ári síðan tók ég þátt í Me Too-ráðstefnu í Hörpu sem var liður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og skipulögð í samstarfi við Háskóla Íslands. Rúmlega 800 manns tóku þátt og á dagskrá voru þekktir fyrirlesarar á borð við Angelu Davis, Roxane Gay, Liz Kelly, Marai Larasi og Cynthiu Enloe.
Fyrsta daginn voru norrænir ráðherrar og þjóðhöfðingjar á staðnum. Þrátt fyrir að ýmsar áskoranir sem norrænt samfélag stendur frammi fyrir hafi komið til tals, meðal annars í ljósi samtvinnun mismunabreyta, voru umræðurnar átakalausar og fólk kepptist við að gefa sjálfu sér klapp á bakið. Norðurlöndin eru jú ofarlega á lista yfir þau ríki þar sem jafnrétti kynjanna mælist mest. En eftir því sem á ráðstefnuna leið komu önnur sjónarmið fram í vaxandi mæli. Skyndilega tóku raddir kvenna af erlendum uppruna, fatlaðra kvenna og kvenna sem kváðust sjálfar hafa farið illa út úr Me too-ferlinu að hljóma, kvenna sem sögðust aldrei hafa verið jafn jaðarsettar eða jafnmiklum órétti beittar og í íslensku samfélagi, í því landi þar sem mest jafnrétti á að ríkja.
Konur af erlendum uppruna er sá hópur sem er hvað berskjaldaðastur í íslensku samfélagi. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi (W.O.M.E.N. in Iceland) hafa um margra ára skeið staðið fyrir Söguhring kvenna, vettvangi þar sem konur af erlendum uppruna geta skipst á reynslusögum. Samkvæmt þeim tók starfsemin breytingum eftir Me too og söguhringurinn varð að nokkurs konar „safe space“, öruggu rými þar sem þátttakendur gátu deilt hugsunum sínum og upplifunum.
Stærsta verkefni okkar þetta árið, listsýningin Undirniðri, snertir einnig á málefnum tengdum kyni og kynverund. Í sýningunni rannsaka níu norrænir samtímalistamenn það sem ólgar undir yfirborði norrænnar útópíu um jafnréttissamfélag. Áþreifanlegir og óáþreifanlegir þræðir sem snúa að valdi, sjálfsmynd og berskjöldun taka að fléttast saman og leiða okkur í neðanjarðarferðalag um norræna velferðarsamfélagið.
Í haust munu jafnréttismálin setja svip sinn á dagskrá okkar. Umfram allt viljum við að Norræna húsið sé staður margbreytileika þar sem allar raddir fái að hljóma og hægt sé að ræða hvaða málefni sem er, líka þau erfiðu.