Sýningin „Í síkvikri mótun: vitund og náttúra“ opnar í Hvelfingu þann 17.apríl 2021. Opið verður samkvæmt hefðbundnum opnunartíma Hvelfingar frá 10-17 og mun 20 manna fjöldatakmörkun gilda í rýminu.
Sýningin er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Norræna hússins í Reykjavík og er framlag Listaháskólans til ráðstefnu UArctic (Háskóla Norðurslóða) sem verður haldin í Reykjavík í maí 2021 í tilefni af formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Sýningin hefur hlotið styrki úr verkefnasjóði um samvinnu á Norðurslóðum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar (Nordic Council of Ministers) og Norræna menningarsjóðnum (Nordisk Kulturfond).
„Í síkvikri mótun: vitund og náttúra“ varpar fram svipmyndum af upplifunum, hugleiðingum og rannsóknum listamanna á sviði myndlistar, tónlistar, hönnunar og sviðslista, sem búa á hinum síkvika útjaðri norðursins. Náttúran mótar manngert umhverfi og hið manngerða hefur áhrif á náttúruna; hvort tveggja nú í eins konar hröðun sem okkur rekur ekki minni til að hafi átt sér stað áður. Stefnumót þjóðanna fjögurra minnir á mikilvæg og margslungin söguleg samskipti sem hafa mótað menningu og samfélög landanna. Umbreytingar kalla á endurskoðun fyrri viðhorfa, rýni í vitund og sjálfsmynd okkar sem einstaklinga jafn sem þjóða. Það er orsakasamhengi á milli gjörða okkar og atburða í náttúrunni; og öfugt: undir hinum langa boga náttúruafla eru einstök líf, einstök samfélög, einstakar sögur. Atburðir á Íslandi síðustu vikur, mánuði og ár minna okkur á að það er ekki stöðugleikinn sem er eðlilegt ástand, heldur hin stöðuga umbreyting alls; náttúru, manna og samfélaga.
Á sýningunni eiga verk Berglind María Tómasdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Emilie Dalum & Michael Richardt, Inuuteq Storch, Jóhan Martin Christiansen, Ólöf Nordal, Tinna Gunnarsdóttir, Rikke Luther og Thomas Pausz. Með þátttöku: Ana Luisa S. Diaz De Cossio og Khetsin Chuchan.
Sýningarstjórar eru Hanna Styrmisdóttir og Hulda Stefánsdóttir. Nemendur á námskeiði í sýningagerð og sýningastjórnun við Listaháskóla Íslands tóku þátt í gerð sýningarinnar.
Hvelfing, sýningarrými Norræna hússins, er opin þriðjudaga til sunnudaga frá 10-17.