Norrænar bókmenntir í brennidepli á Bókamessunni í Gautaborg 2021

Bókamessan í Gautaborg kynnir dagskrá ársins í dag, 24. ágúst. Í ár eru norrænar bókmenntir í brennidepli sem eitt af þremur sérlegum þemum messunnar. Að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar hefur Norræna húsið í Reykjavík umsjón með skipulagningu spennandi dagskrár með norrænum rithöfundum á Bókamessunni í ár.

Bókamessan í Gautaborg er einn af árlegum hápunktum bókmenntalífsins og mikilvægur vettvangur fyrir fagfólk. Messan fer nú að hluta fram á netinu, þar sem pallborðsumræður á messunni eru teknar upp og streymt á streymisveitunni Bokmässan Play. Norrænar bókmenntir eru ein af þremur sérlegum áherslum messunnar í ár og við bjóðum jafnt þekktum og vinsælum höfundum sem nýjum og spennandi norrænum röddum til samtals.

„Þetta er í þriðja sinn í næstum fjörutíu ára sögu Bókamessunnar sem norrænar bókmenntir eru eitt þemanna. Norrænar bókmenntir eru mikið lesnar, vinsælar og dáðar í Svíþjóð og margir norrænu höfundanna verða á staðnum, sem við erum mjög ánægð með. Alls taka á bilinu 15 til 20 höfundar þátt í viðtölum og umræðum, oft með sænskum höfundum,“ segir Oskar Ekström, dagskrárstjóri Bókamessunnar.

„Við erum mjög ánægð með þá miklu áherslu sem lögð er á norrænar bókmenntir á bókamessunni. Bókmenntir gegna mikilvægu hlutverki við að sameina íbúa Norðurlanda og skapa skilning þvert á landamæri. Dagskrá bókamessunnar býður upp á mikilvægt samtal á milli höfunda frá norrænu löndunum sem getur veitt okkur nýtt sjónarhorn á þá síbreytilegu tíma sem við lifum á og um leið skapað áhuga meðal nýrra lesenda,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Sex norrænir höfundar í spennandi umræðum

Í samstarfi við Norræna húsið í Reykjavík býður Bókamessun upp á norræna dagskrá þar sem sex norrænir höfundar þátt í spennandi umræðum um norrænar bókmenntir og hlutverk þeirra í framtíða norrænu samstarfi í takt við þá framtíðarsýn að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

  • Norski rithöfundurinn Vigdis Hjorth og finnski höfundurinn Pajtim Statovci eru bæði tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021, Vigdis fyrir skáldsögu sína Er mor død og Pajtim fyrir skáldsöguna Bolla. Þau ræða við sænska rithöfundinn og menningarblaðamanninn Amanda Svensson um sjálfsvitund og krísu – jafnt ytri sem innri – í norrænum bókmenntum.

 

  • Sjónum er beint að félagslegri sjálfbærni í samtali höfundanna Hanne Højgaard Viemose frá Danmörku, sem var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2020 fyrir skáldsöguna HHV-FRSHWN – Dødsknaldet i Amazonas og íslenska höfundarins Guðrúnar Evu Mínervudóttur, sem er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021 fyrir skáldsöguna Aðferðir til að lifa af. Samtalinu stýrir Elisabeth Friis (DK), lektor í bókmenntafræði við Háskólann í Lundi og fulltrúi í danskri verðlaunanefnd Bókmenntaverðlaunanna.

 

  • Íslenski rithöfundurinn Andri Snær Magnason, sem er tilefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021 fyrir Um tímann og vatnið, ræðir við sænska höfundinn Gunnar D. Hansson sem var tilnefndur til sömu verðlauna árið 2018 fyrir verkið Tapeshavet, um græn Norðurlönd. Hvernig skrifa rithöfundar um og á grænum Norðurlöndum? Hvaða tilgangi þjóna bókmenntirnar í samtalinu um græna framtíð og hvaða möguleika bjóða þær upp á? Samtalinu stýrir íslenski menningarblaðamaðurinn og skáldið Halla Þórlaug Óskarsdóttir, en það er tekið upp í Norræna húsinu í Reykjavík.

 

Bókamessan fer fram í Gautaborg dagana 23. – 26. september 2021.

Hér má kaupa aðgangsmiða að dagskránni í Gautaborg eða að streymisveitunni Bokmässan Play.

Hér má skoða dagskrá Bókamessunnar í heild sinni.

Hér má fræðast um Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

 

Fréttin var uppfærð 23.09.2021