Tekstinn er þýddur úr sænsku
Föstudaginn 24. janúar opnaði myndlistarsýningin Land handan hafsins í Norræna húsinu en hún var framleidd af Pro Artibus stofnuninni í Finnlandi. Opnunarkvöldið var stórkostlegt, eins og meiri háttar veisla. Innan um myndlist, blóm, mat og vín fögnuðu uppnumdir gestirnir því að sýningarsalur Norræna hússins opnaði að nýju. Kvöldið hverfur mér seint úr minni, þessi síðasta geggjaða veisla áður en öllu var lokað.
Myndlistin er griðastaður þar sem við gleymum veruleikanum um stund og finnum hughreystingu, örvun og samhengi í annarri vídd. Undanfarnar vikur hafa sýnt okkur svo ekki verður um villst hvað menning og listir eru lífsnauðsynlegar manneskjunni. Aldrei hafa verið eins margar ábendingar á samfélagsmiðlum um bækur, kvikmyndir og spilunarlista, stafræna leiðsögn um söfn og sýningar að ógleymdum tónleikum og leiksýningum í beinu streymi.
Í menningarlífinu leggur fólk sig fram við að finna nýjar samskipta- og miðlunarleiðir þegar allar hefðbundnar menningarstofnanir eru lokaðar. Nú getur hver sem er fært listaverk í stafrænt form með þar til gerðum verkfærum og heimasíðum á netinu. En það er ekki eins einfalt og lítur út í fyrstu.
Listin snýst um samveru og rými
Þrátt fyrir að hinn stafræni heimur veiti óendanleg tækifæri til að njóta menningar og lista er netið best fallið til að miðla list sem er sköpuð markvisst með stafræna miðlun í huga og sem nýtir eðli og möguleika tækninnar til hins ítrasta. Ég vona svo sannarlega og ég trúi því reyndar að sá tími sem nú stendur yfir eigi eftir að kynda undir sköpun og nýjar hugmyndar um stafræna list og listmiðlun.
Þegar um er að ræða miðlun á list sem er sköpuð í raunheimum ætla ég að vona að það sé gert í góðu samráði við listafólkið sjálft og sýningarstjóra. Þá er betra að fresta sýningum en að þröngva nýju miðlunarformi upp á höfundana.
Við höfum ákveðið í samráði við listafólkið Marjo Levlin og Carl Sebastian Lindberg að streyma tveimur kvikmyndum af sýningunni Land handan hafsins. Það verður gert á heimasíðu Norræna hússins þar til sýningunni lýkur 5. apríl. Báðar myndirnar fjalla um mikilvæga viðburði í sögu Finnlands og tengjast viðfangsefni sýningarinnar sem er hugmyndir og draumar fólks um betri heim. Ég vona að þið grípið tækifærið til að sjá þær. Skoða myndbönd
Kær kveðja,
Sabina
PS. Griðastaður okkar fjölskyldunnar þessa dagana er Múmíndalurinn. Á hverju kvöldi lesum við „Halastjarnan kemur“ upphátt, þar sem við flissum og súpum hveljur yfir því hvernig sögupersónurnar bregðast við yfirvofandi hörmungum. Það er eitthvað kunnuglegt við það.
Lesa kveðja af heimaskrifstofunni