Fundur Fólksins

Ingibjörg Gréta Gísladóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Fundar Fólksins.

Fundur fólksins er lífleg tveggja daga lýðræðishátíð um samfélagsmál og stjórnmál sem haldin verður 2. og 3. september 2016  í Norræna húsinu. Þar munu ólíkir hópar koma saman og ræða þau mál sem á þeim brenna og hvernig samfélag þeir vilja að Ísland verði í framtíðinni. Markmið Fundar fólksins  er að auka tiltrú á lýðræði, stjórnmálum og styrkja uppbyggjandi pólitíska umræðu.

Ingibjörg Gréta Gísladóttir hefur langa og víðtæka reynslu af skipulagningu og markaðssetningu viðburða. Hún er eigandi Rigga.is sem sérhæfir sig í viðburðum og markaðssamskiptum og stýrði nú síðast framkvæmd stórsýningarinnar Verk og vit 2016. Þar á undan var hún framleiðandi RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík 2014-2015. Þá er hún einnig eigandi Reykjavík Runway sem sér um markaðssetningu hönnunar á alþjóðamarkaði.

Ingibjörg er með MsC í Nýsköpun og frumkvöðlafræði við Háskólann á Bifröst. Áður hafði hún lokið leikaraprófi frá Leiklistarskóla Íslands.

Að sögn Ingibjargar er mikið og spennandi verk fyrir höndum við að kynna hátíðina sem að hennar mati er mikilvægur liður í samfélagsumræðunni: „Það er skortur á vönduðum vettvangi sem þessum þar sem allir geta komið saman, rætt málin á jafningjagrundvelli og þróað eðlilegri samskipti við ráðamenn þjóðarinnar“, segir Ingibjörg. „Hátíðin er einstaklega vel tímasett í ár, rétt fyrir kosningar, sem gefur þjóðinni gullið tækifæri til að ræða málin af hreinskilni um hvernig samfélag við viljum búa í.“

Fundur Fólksins er sjálfstæð hátíð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum á Íslandi eða annars staðar. Fundur Fólksins var fyrst haldin á Íslandi í júní á síðasta ári en sambærilegar hátíðir eru orðinn ómissandi hluti af hverju sumri á hinum Norðurlöndunum. Sú þekktasta er Almedalsveckan í Svíþjóð sem er einn stærsti og mikilvægasti vettvangur sænskrar samfélagsumræðu.

Aðstandandi hátíðarinnar er Almannaheill og aðrir bakhjarlar eru Norræna húsið, Norðurlönd í fókus, Velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg og Samstarfsráðherra Norðurlanda.

IMG_1412

Ketill Berg Magnússon, stjórnarformaður Almannaheilla og Ingibjörg Gréta Gísladóttir nýráðinn verkefnastjóri Fundar Fólksins.

Heimasíða: í vinnslu
Facebook síða