Sigurðar Nordals fyrirlestur


17:00

Sigurðar Nordals fyrirlestur

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og ritstjóri TMM, flytur opinberan fyrirlestur í Norræna húsinu, miðvikudaginn 14. september nk. kl. 17.00, á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals. Fyrirlesturinn nefnist: „Vér lærum ekki til að verða lærðir, heldur til að verða góðir.“

Í fyrirlestrinum beinir Guðmundur Andri sjónum að Sveinbirni Egilssyni rektor (1791–1852), skólastarfi hans og ritstörfum og hvernig hann var í hópi þeirra sem lögðu grundvöllinn að því hvernig við hugsum á íslensku. Einnig verður fjallað um samband þeirra feðga, hans og Benedikts Gröndal, eins og því er lýst í Dægradvöl. Loks verður reynt að draga fram það úr arfleifð Sveinbjarnar sem vert er að halda á lofti en yfirskrift fyrirlestrarins er fengin úr skólasetningarræðu Sveinbjarnar árið 1819 og er útlegging hans á alþekktu latnesku spakmæli: Non scholæ sed vitæ discimus – við lærum ekki fyrir skólann heldur lífið.

Guðmundur Andri lauk BA-prófi í íslensku og bókmenntafræði frá HÍ 1983. Þá stundaði hann nám til cand.mag.-prófs í íslenskum bókmenntum við HÍ 1983-1985. Guðmundur Andri hefur starfað sem blaðamaður, gagnrýnandi, ritstjóri og þáttagerðamaður. Hann er reglulegur pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu og rithöfundur en fyrsta bók hans, Mín káta angist, kom út 1988. Meðal annarra skáldsagna hans er Sæmd sem fjallar um skáldið og rómantíkerinn Benedikt Gröndal.

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Allir eru velkomnir.