Baltnesk barnamenningarhátíð í Norræna húsinu

Dagana 20. apríl-14. júní fer fram Baltnesk barnamenningarhátíð í Norræna húsinu.

Norræna húsið fagnar barnamenningu með því að kynna baltneska menningu á fjölbreyttan og skapandi hátt í samstarfi við einstaklinga með baltneskan bakgrunn. Á fyrstu viku hátíðarinnar verður skólahópum boðið í klippimyndasmiðju sem er tileinkuð sögulegum byggingum gamla bæjarins í Vilníus, höfuðborg Litháens. Þar mun listakonan Jurgita Motiejunaite segja börnunum sögu bygginganna og aðstoða þau í að búa til sínar eigin klippimyndir. Klippimyndaverkin munu prýða sýningarvegg í anddyri/Atrium Norræna hússins til 14. júní – lokadags barnamenningarhátíðar.

Mikil breidd er í smiðjum fram undan og má þar nefna hljóðfærasmiðju þar sem gestir kynnast Trejdeksnis, lettnesku ásláttarhljóðfæri og baltneska sagna- og myndasmiðju sem byggir á litháískri þjóðsögu um grassnákinn.

Bókasafn Norræna hússins býður upp á sögustundir á litháísku og lettnesku og bækur á eistnesku, litháísku og lettnesku eru aðgengilegar til lestrar á bókasafninu í samstarfi við Móðurmál er máttur. Bækur frá vinsæla lettneska bókaforlaginu Big and Small verða einnig dregnar fram.

Yfirlit yfir viðburði má finna í viðburðardagatali Norræna hússins sem ýmist eru opnar eða fyrirframbókaðar af skólahópum. Nánari upplýsingar og skráning á opnar vinnustofur hjá Hrafnhildi Gissurardóttur fræðslufulltrúa: hrafnhildur@nordichouse.is.

Litháísk sögustund

Evelina Daciutè les úr bók sinni Refurinn í rólunni (enskur titill: The Fox on the Swing litháískur titill: Laimė yra Lapė) í tilefni baltneskrar barnamenningarhátíðar í Norræna húsinu vorið 2021.

Sumarsöngvar lettneska skólans í Reykjavík

15.maí. Lokaður viðburður vegna fjöldatakmarkana en myndefni frá viðburðinum mun birtast á síðunni

Nemendur lettneska skólans í Reykjavík munu bjóða sumarið velkomið með lettneskum söngvum, gátum og leikjum. Nemendurnir leika hefðbundna hringleiki svo sem „Sól og máni“ og „Hver er í garðinum?“ Kallað verður á sumarfugla með lettneskum þjólagahljóðfærum – ‘svilpavnieks’ og ‘kokle’. Nemendurnir munu einnig búa til pappírsfugla og vefja hreiður.

Dainas, lettneskir þjóðsöngvar, eru knappar vísdómsvísur sem kveðnar eru með söng. Þessar vísur sem samdar voru fyrir meir en þúsund árum voru kveðnar á hátíðum sem og við daglega vinnu en lýsa má þeim sem hugleiðingum um lífið í vísnaformi.

Ljósmynd: Laura Nesaule

Litháísk skrautegg & íslenskir fuglar

24.apríl – lokaður viðburður vegna fjöldatakmarkana

Nemendur litháíska skólans í Reykjavík fjölmenntu á sýninguna Eggið á barnabókasafni Norræna hússins í tilefni af baltneskri barnamenningarhátíð hússins. Kennarar skólans fræddu nemendur um íslenska fugla og fuglahljóð og kenndu nemendum um litháísk nöfn þeirra  en Norræna húsið liggur við friðlend í vatnsmýrinni með áberandi fuglalífi. Nemendur skiptust í hópa eftir aldri og framleiddu litháísk skrautegg með ólíkum aðferðum á meðan fór elsti hópurinn á myndlistarsýningu í Hvelfingu og leystu verkefni í tengslum við hana.

Hvíti hjörturinn & náttúruöflin  - Myndasögusmiðja

20.-21.apríl 

Nemendum í þriðja bekk Melaskóla var á fyrstu viku baltneskrar barnamenningarhátíðar boðið á smiðju þar sem litháísk þjóðsaga var tengd við íslensk náttúruöfl. Þekkta þjóðsagan um hvíta hjörtinn sem leggur skóginn í álög var tengd við eldgos, jarðskjálfta og önnur náttúruöfl sem eru Íslendingum kunn. Í smiðjunni sköpuðu nemendur sameiginlegt myndlistarverk í myndasögustíl.

Viðburðurinn var lokaður vegna sóttvarnarráðstafana en myndir úr smiðjunni má sjá hér fyrir neðan.