Bókasafnið mælir með

Þegar ástandið í kringum okkur er eins og það er þessa dagana er fátt betra en að gleyma sér í góðri bók. Á bókasafni Norræna hússins má finna bækur á norðurlandamálunum, tímarit og myndefni sem fjalla um allt milli himins og jarðar. Þegar af mörgu er að taka getur verið erfitt að velja og ákveða hvar sé best að byrja. Starfsfólk bókasafnsins kemur hér með uppástungur og hugmyndir að nýlegu og áhugaverðu lesefni. Kannski finnur þú hér nýja uppáhaldsbók, skáldsögu, ævisögu eða krassandi krimma.

Bókasafn

Iben Mondrup: Tabita

TABITA

Roman (dansk)
Iben Mondrup: Tabita, 2020

Hin fimm ára gamla Tabita og litli bróðir hennar eru rifin upp með rótum og ættleidd af kaupsýslumanninum Bertel og eiginkonu hans þegar hjónin, flytja til baka til Danmerkur eftir nokkurra ára búseta á Grænlandi. Litla grænlenska stúlkan saknar heimahagana sárt og finnur aðeins huggun í litla bróður sínum og dúkkunni sinni sem er hennar sálufélagi. Á meðan hriktir í hjónabandi dönsku foreldranna og litli bróðirinn hverfur skyndilega. Frásögnin af litlu stúlkuna sem reynir að vera önnur en hún er löng og áhrifarík. Grænlensk menning og náttúra spilar stóran þátt í frásögninni en um leið er gengið út frá að dönsk menning sé ríkjandi. Bókin veitir innsýn í fortíðina, tengsl barna og fullorðinna, tengsl Grænlands og Danmerkur og nýstandi kærleik, svik, leyndarmál og vanmátt

Bókasafn

Thomas Korsgaard: Tyverier

TYVERIER

Noveller (dansk)
Thomas Korsgaard: Tyverier, 2019

Fimmtán smásögur sem segja frá leyndarmálum, einsemd og von ólíkra einstaklinga. Sögurnar segja frá því þegar fortíðin kemur aftan að þér á pósthúsinu, flótta úr fjölskylduboði eftir að sannleikurinn kemur í ljós, að selja deyjandi manneskjum tryggingar og um von að nýársfagnaður verði ánægjulegur á meðan slegist er um síðasta laxaflakið í versluninni. Smásögur sagðar á knappan og lýsandi hátt og fjalla um þjófnað á hinu og þessu og leyndarmálum sem engin áttar sig á. Sögurnar eru tilvaldar til aflestrar í dönskunámi.

Bókasafn

Maren Uthag: En lykkelig slutning

EN LYKKELIG SLUTNING

Maren Uthag: En lykkelig slutning, 2019

Ættarsaga sjö kynslóða útfararstjóra þar sem hver einstaklingurinn er undarlegri en sá næsti. Nicholas laðast að hinum látnu en veit um leið að það er óásættanlegt bæði félagslega og menningarlega. Þegar hann skoðar ættarsögu sína kemst hann að mis undarlegri hegðun forfeðra sinna, gegnum fyrirtækið sem rekið er áfram af hjátrú og draugum, líknardrápum, heimsfaraldri, áráttu og þráhyggju, brennuvörgum, bálförum og fleiru skrýtnu og skemmtilegu. Bókin er ekki bara fjölskyldusaga heldur innsýn í sögu dauðans og hinum mörgu hliðum hans og hefðum. Nokkuð sem hægt er að læra af og hafa gaman af í heimsfaraldri dagsins í dag. Og skemmta sér um leið yfir sýn höfundar á sálrænar þrautir einstaklingsins.

Bókasafn

Billede fra Bogmagasinet.

FRUEN

Erindringsroman (dansk)
Malene Lei Raben: Fruen, 2019

Hvernig verður líf manns þegar maður sem barn, í gegnum uppreisn æsku áttunda áratugarins, elskar móður sína skilyrðislaust en þú áttar þig svo á því sem ung kona, að þessi sama móðir er vandræðagripur, metnaðarfull og sjálfhverf og hatar augljóslega sína eigin dóttur. Og þegar þú þarft, sem fullorðin einstaklingur, að upplifa baktal móðurinnar og fá þín eigin börn upp á móti þér. Hvernig á að komast í gegnum veikindi móður, þegar þú ert öll af vilja gerð en móðirin kýs að vera í hlutverki fórnarlambs og sakar dóttur sína um að hafa alltaf brugðist sér. Þú spyrnir í botninn, sleikir sárin vitandi að þú hefur sýnt alla þá ást og umhyggju sem þú átt til þrátt fyrir að vera ætið misskilin. Bitur frásögn af krefjandi og áhrifaríku sambandi móður og dóttur.

Bókasafn

Billede fra JP – Politikens Hus.

MØRKELAND

Crime novel (Danish)
Niels Krause-Kjær: Mørkeland, 2019

Pólitísk spennusaga þar sem embættismaður er myrtur stuttu fyrir komandi Alþingiskosningar. Eldri blaðamaður, hokinn af reynslu og nýútskrifaður lærlingur, komast á slóð svika innan hóps stjórnmálamanna og opinberra embættismanna sem líta á sjálfa sig sem andspyrnuhreyfingu seinni heimsstyrjaldar. Sagan er sjálfstætt framhald fyrstu skáldsögu Krause-Kjær, Kongeblake (2000) sem gerð var bíómynd eftir. Höfundur þekkir vel til allra króka og kima stjórnmálanna og setur fram áhugaverðar skoðanir á þróun fjölmiðla, pólitískum populisma og stöðu Evrópu í dag. Persónur bókarinnar eru tilbúningur en við nánari athugun má greina sumar þeirra í stjórnmálum dagsins í dag.

Bókasafn

Billede fra K – Danish Art Foundation.

SØVNLØS – tusen våkenetter og én løsning

Faglitteratur om søvn (norsk) Anders Bortne

Søvnløs – tusen våkenetter og én løsning, 2019

Anders er ósköp venjulegur maður fyrir utan að hann hefur ekki getað sofið í átján ár. Hann bíður lesandanum í ferðalag þar sem hann leitar sér hjálpar. Dáleiðsla, jurtate, jóga, hugleiðsla, nálastungur og svefnmeðul. Hann kynnir sér rannsóknir á því sem heldur okkur vakandi og kemst að því að 15% norðmanna eiga við svefnvandamál að etja og að vandamálið er nokkuð meðal unglinga. Anders er hvorki læknir né sérfræðingur á sviði svefns, en í leit sinni að svörum kynnist hann hugrænni atferlismeðferð, aðferð sem fáir þekkja, og loksins sefur Anders. Þjáist þú af svefnleysi eða finnst þér efnið bara áhugavert? Haltu þér vakandi og lestu bókina og fáðu svörin sem þú leitar að.

Bókasafn

Billede fra Tiden.no

Merete Pryds Helle: Nora

Nora

Roman (dansk)
Merete Pryds Helle: Nora, 2019

Sagan er ein af þremur endurgerðum á leikverkum Ibsen og hér er á ferðinni endurgerð á Dúkkuheimilinu. Hin unga og ástfangna Nora yfirgefur heimili sitt, giftist Torvald, eignast barn og gefur sig alfarið að síversnandi þunglyndi eiginmanns síns en á sama tíma íhugar hún framtíð sína og leit sína að þekkingu. En það er nú svo að halda uppi ímynd hamingjusams hjónabands krefst margra fórna af hálfu Nora sem finnst hún fangi í eigin veruleika. Hún leggur allt að veði og ferðast, með Torvald, í suðrið í leit að lækningu fyrir hann. Á sama tíma kynnist hún sterkum sjálfstæðum konum, sér eiginmann sinn í réttu ljósi og brýst úr viðjum vanans og undan þeim gildum sem áttu við um konur þess tíma. Lestu bókina og reyndu að gera þér í hugarlund hvernig það hefur verið fyrir Noru að safna upp hugrekki og yfirgefa heimili sitt, eiginmann og börn.

Bókasafn

Billeder fra Alt.dk og fra Plusbog

VÅDESKUD

Krimiroman (dansk)
Katrine Engberg: Vådeskud, 2019

Þessi bók er sú fjórða í röðinni um rannsóknarlögreglumennina Jeppe Kørner og Annette Werner og hjálparhellu þeirra Esther De Laurenti sem er bókmenntafræðingur á eftirlaunum. Nýtt og dularfullt mál kemur upp í hendurnar á þeim þar sem unglingspiltur hverfur eftir að hafa skilið eftir undarlegt (kveðju) bréf. Hefur hann verið numinn á brott eða hefur hann tekið sitt eigið líf? Auðug fjölskylda piltsins lumar á mörgum leyndarmálum sem hindrar rannsókn málsins í Kaupmannahöfn samtímans, bæði á láði og á legi. Rannsóknarteymið okkar Kørner og Werner eru ólíkir einstaklingar og einkalíf þeirra þróast á ólíkan hátt gegnum bækurnar, Krokodillevogteren (2016), Blodmåne (2017) og Glasvinge (2018). Lesandinn er afvegaleiddur í gegnum lesturinn en á endanum er söguþráður og flétta höfundar einstaklega góð. Sérlega góðar sakamálasögur.

Bókasafn

Billeder fra People’s Press og Goodreads

NORA eller BRÆND OSLO BRÆND

Roman (norsk og oversat til dansk)
Johanna Frid: Nora eller brænd Oslo brænd, 2019

Skandinavísk skáldsaga um logandi afbrýðisemi elskenda, hinnar sænsku Johanna og hins danska Emil og fyrrum kærustu hins síðarnefnda hinnar norsku Nora. Fyrrum kærastan er allt sem Johanna er ekki, fögur, myndræn og afar vinsæl á samfélagsmiðlum. Þegar Emil hittir aftur gömlu kærustuna gerist Johanna eltihrellir hennar á Instagram. Þrátt fyrir að Emil geri allt til að sannfæra Johanna um ást sína til hennar þá er Johanna altekin afbrýðisemi. Auk þess er hún þjökuð af þrálátum kviðverkjum sem rekja mega til legslímuflakks sem er vel líst í bókinna. Afbrýðisemin og ekki síður það sem er líkt og ólíkt í menningarheimum Skandinavíu er lýst af höfundi á háðskan og athyglisverðan hátt.

Bókasafn

Billede fra Grand Agency

FØR MIN MAND FORSVINDER / Ennen kuin mieheni katoaa

Selja Ahava: Før min mand forsvinder, 2019/ Ennen kuin mieheni katoaa, 2017

Skáldsaga um að týnast í tilfinningum sínum þegar eiginmaður þinn tilkynnir eftir 10 ára hjónaband, að hann hafi í raun alltaf viljað vera kona. Ótrúleg frásögn frá fyrst hendi um ringulreið, rugling og erfiðleika við að skilja kynskipti og allt sem þeim fylgja og skilning á þeirri framtíð sem þú taldir að byði þín. Í þessari sögu eins og í vinningssögu sinni Pludselig falder ting fra himlen / Taivaalta tippuvat asiat (2018), tekst höfundi á einkar trúverðugan hátt að útskýra og segja frá þegar veröldin skyndilega stendur í stað og hvernig þú, hægt og rólega, ferð að skilja sjálfa þig aftur og aðlagast nýjum veruleika sem þú hefur ekkert um að segja. Um sorgina sem fylgir því að missa þann sem þú elskar þrátt fyrir að hann sé enn til staðar. Samhliða sögu parsins er sögð saga Columbusar og leit hans að nýja heiminum.

Bókasafn

Billeder fra Randers Bibliotek og Goodreads

VILHELM HAMMERSHØI - På sporet af det åbne billede

Annette Rosenvold Hvidt og Gertrud Oelsner:
Vilhelm Hammershøi – på sporet af det åbne billede, 2018

Greinargóð og vönduð lýsing á lífi Vilhelm Hammershøi frá lista- og menningarlegu sjónarhorni. Hammershøi var einn þekktasti listmálari Danmerkur og er sér á báti að meðal samtímamanna sinna í heimi listmálara. Hann varð fyrir miklum áhrifum af þróun ljósmyndarinnar á 20. öld og í málverkum hans má skynja bæði ró og frið í einlita norrænu umhverfi. Byggingar í þoku og mystri grípa áhorfandann. Hammershøi málaði ljós og skugga innandyra og var sérlega hrifin af gluggum og hurðum eldri bygginga og oft á tíðum á sínu eigin heimili. Hann ferðaðist víða og notaði hversdagslífið, og oftar en ekki eiginkonu sína og heimili þeirra við Strandgade í Kaupmannahöfn, sem myndefni. Móðir hans, systir, bróðir og eiginkona og leiðbeinandi hans S. Krøyer eru ljóslifandi á hinum fjölmörgu ljósmyndum, teikningum, málverkum, póstkortum og bréfum, sem prýða bókina. Bókin er líklega ein sú þyngsta sem Bókasafn Norræna hússins á en vel þess virði að fá að láni og njóta margra af fegurstu verkum Hammershøi.

Bókasafn

Billeder fra Dagbladet og goodreads

Hungerhjerte, Karen Fastrup

HUNGERHJERTE

Roman (dansk)
Karen Fastrup: Hungerhjerte, 2018

Æviminningar rithöfundarins og þýðandans Karen Fastrup. Höfundur segir frá eigin lífi þar sem hún leit á stundum á sjálfa sig sem tifandi tímasprengju, hvernig hún beislaði villidýrið innra með sér og hvernig það er að líta á sjálfa sig sem geðsjúkling. Frásögn af erfiðri æsku og erfiðum föður, missi litla bróður, kvíða og sjálfsmorðshugleiðingum sem leiða til þess að seinna á lífleiðinni er hún lögð inn á geðdeild eftir að hafa ráðist á kærasta sinn með eggvopni. Lesandinn er leiddur inn í huga höfundar sem hingað til hefur lifað venjuegu en um leið ekki svo venjulegu, með kærustum, börnum og starfsframa. Á sama tíma sogast lesandinn inn í ruglingslegan þankagang höfundar, viðtöl við sálfræðinga og mismunandi meðferðarstofnanir, um hræðsluna við að fá greiningu og vonina sem hún bindur framtíðinni þar sem hún verður að nota þau spil sem henni eru gefin, að nota stefnumótaappið Tinder og að fá aftur löngunina til að skrifa.

Bókasafn

Billede fra Vildumed.dk

SOLO

Krimi (dansk)
Jesper Stein: Solo, 2018

Hér er um að ræða sjöttu glæpasöguna um rannsóknarlögreglumanninn Axel Steen. Fyrrum aðstoðarlögreglustjórinn Axel vinnur nú sem ráðgjafi í öryggismálum. Hann aðstoðar nýjan yfirmann sinn, vellauðugan bankastjóra þegar í ljós kemur að starfsmaður bankans hefur stundað svindl og verður að fara. Á sama tíma rannsakar fyrrum félagi Axel, Vicki Thomsem, morð á ungum innflytjanda sem verið hafði viðloðandi glæpagengi. Í heimi glæpagengja segir engin neitt og Vicki nær, eftir nokkuð þref, að sannfæra Axel um að aðstoða sig. Málin tvö fléttast saman þar sem reynir á siðferði og réttlæti þar sem munur hinna mismunandi þjóðfélagsstiga er áþreifanlegur. Höfundur starfaði áður sem blaðamaður á sviði glæpa og refsinga og aðrar bækur eftir sama höfund eru: Uro (2012), Bye bye Blackbird (2013), Akrash (2014), Aisha (2015) and Papa (2017).

Bókasafn

Billeder fra Politikensforlag og Kverbókaútgáfa

Jeg er f*cking hot!

Faglitteratur (dansk)
Renée Toft Simonsen: Jeg er f*cking hot, 2018

Persónuleg frásögn höfundar til okkar sem erum í kringum fimmtugt og upplifum hormónasveiflur svipaðar og við gerðum á unglingsárunum. Bókin er líka fyrir þá sem vilja fá örlítin skilning á tíðahvörfum kvenna, viðkvæmni og rússibanareið í gegnum allan tilfinningaskalann meðan líkaminn eldist og tekur breytingum. Tímabil hjá konum þegar þeim finnst þær ekki lengur ásjálegar á sama tíma og hitakóf á næturna, börnin að flytja að heiman, hjónaskilnaðir og fleira sem yfirtekur hverdaginn. Sálrænar og vísindalegar uppgötvanir tengdar tíðahvörfum eru ræddar og höfundurinn Renée Toft Simonsen, fyrrum ofurfyrirsæta, segir okkur sína sögu á einlægan hátt, frá sínu fu*cking hot lífi fullu af kaffi, sígarettum, ást og börnum og engine vafi um að lesandinn mun hrífast með.

Bókasafn

Billeder fra Politikensforlag og ALT