Barna- og unglingabókmenntaverðlaunin
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt árlega frá árinu 2013. Verðlaunin eru veitt norrænu bókmenntaverki, skrifuðu og eða myndskreyttu fyrir börn og unglinga. Verðlaunin eru ein fimm verðlauna sem Norðurlandaráð veitir ár hvert. Verðlaunaféð er 300.000 danskar krónur. Verðlaunin hlýtur nýtt verk ætlað börnum og unglingum sem þykir skara fram úr hvað varðar efnistök, innihald og myndskreytingar.
Dómnefnd skipuð fulltrúum frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Álandseyjum og samíska tungumálasvæðinu, tilnefnir 12-14 verk á vordögum og vinningshafinn er svo kynntur að hausti á árlegri verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs.
Norrænar barna- og unglingabókmenntir
Á Norðurlöndunum njóta börn og ungmenni virðingar sem virkir borgarar í lýðræðislegu samfélagi. Norræn ungmenni eru hvött til sjálfstæðrar hugsunar, sköpunargleði og þess að standa vörð um réttindi sín. Þetta endurspeglast í vönduðum barna- og unglingabókmenntum þar sem borin er virðing fyrir lesandanum og heimsmynd hans hverju sinni, hvort sem er með jarðbundnum lýsingum hversdagsins, tilvistarerfiðleikum eða villtum ævintýrum í ókunnum víddum.
Skrifstofa Bókmennta Verðlauna Norðurlandaráðs er til húsa í Norræna húsinu í Reykjavik.
Frekari upplýsingar um verðlaunin má finna hér.
Frá árinu 2013 hafa verðlaunahafar og þeir sem tilnefndir hafa verið til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verið valin vegna framúrskarandi efnistaka og myndskreytinga þegar kemur að kímni, alvöru, dýpt og ímyndunarafli í bókmenntum. Norrænar barna- og unglingabókmenntir dagsins í dag takast á við málefni eins og jafnrétti kynjanna, tengsl barna og fullorðinna, fjölbreytileika og þátttöku í samfélaginu. Tekist er á við málefni líðandi stundar og hversdagslegt líf söguhetjanna en einnig framtíðarsýn og ævintýri fyrir alla aldurshópa.
Finna má ólíkar áherslur á milli Norðurlandanna í barna- og unglingabókmenntum en á sama tíma má í þeim finna mikilvægan gegnumgangandi sameiginlegan þráð.
Norræna húsið er skrifstofa fyrir Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Skrifstofan annast alla daglega vinnu við verðlaunin. Vinnan fer fram í samráði við formann dómnefndar verðlaunanna og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Skrifstofa verðlaunanna sendir frá sér fréttabréf fjórum sinnum á ári á skandinavísku. Hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfinu með því að senda beiðni um það til skrifstofustjóra verðlaunanna.
Sofie Hermansen Eriksdatter
Skrifstofustjóri Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
+354 5517036
sofie(at)nordichouse.is
Um verkefnið LØFTET
Þegar Norræna ráðherranefndin stofnaði til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013 var verkefninu LØFTET komið á fót samhliða. Um er að ræða átaksverkefni um norrænar barna- og unglingabókmenntir sem til stendur að þróa áfram á tímabilinu 2019–2021 undir umsjón skrifstofu bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Verkefnið felst einkum í því að efna árlega til þverfaglegs málþings um nýja strauma í barna- og unglingabókmenntum.
Slíkt málþing verður haldið hvert sumar á þessu þriggja ára tímabili, 2019–2021. Í kjölfar hvers og eins af þessum þremur málþingum kemur út safnrit þar sem þema málþingsins og tengdum málefnum eru gerð skil. Safnritin koma út að vetri til, bæði á rafrænu og prentuðu formi.
Málþingið eflir og tengir saman ýmsa aðila og iðkendur á sviði norrænna barna- og unglingabókmennta, þar sem fagfólk úr ýmsum áttum – fræðimenn, rithöfundar, myndskreytar, miðlarar og útgefendur sem tengjast norræna bókmenntaheiminum – tekur þátt og skapar tenglanet og samlegðaráhrif, einnig um önnur mál auk málþingsins og safnritsins.
„På tværs af Norden“ („Þvert á Norðurlönd“) er röð þriggja safnrita sem gefin eru út undir merkjum LØFTET, átaksverkefni norrænu menningarmálaráðherranna um barna- og unglingabókmenntir. Verkefnið felst einkum í því að efna árlega til þverfaglegs málþings um nýja strauma í barna- og unglingabókmenntum. Í kjölfar hvers málþings er svo gefið út safnrit þar sem þema málþingsins og tengdum málefnum eru gerð skil. Njótið vel!
„På tværs af Norden: Økokritiske strømninger i nordisk børne- og ungdomslitteratur“ („Þvert á Norðurlönd: Vistfræðilegir straumar í norrænum barna- og unglingabókmenntum“)
Nýja safnritið veitir innsýn í vistfræðilega strauma í nýlegum norrænum barna- og unglingabókmenntum gegnum rannsóknir, upplýsingamiðlun, myndskreytingar og skapandi skrif. Safnritið inniheldur meðal annars ritgerðir um þær áskoranir sem fylgja svonefndri mannöld, um rannsóknir á tengslum náttúru, menningar og úrgangs og um aðgerðasinna í norrænum barna- og unglingabókmenntum. Að auki eru í bókinni sjö sterkar sögur um vistfræðitengd viðfangsefni, sem eru afurð samstarfs milli norrænna myndskreyta og rithöfunda. Textarnir í safnritinu eru á dönsku, norsku og sænsku. Safnritið er annað í röð þriggja og kom út 2021.
Lesið safnritið „På tværs af Norden: Økokritiske strømninger i nordisk børne- o…
„På tværs af Norden: Nye tendenser i børne- og ungdomslitteratur med nedslag i forskning og formidling“ („Þvert á Norðurlönd: Nýir straumar í barna- og unglingabókmenntum með hliðsjón af rannsóknum og upplýsingamiðlun“)
Þetta safnrit veitir innsýn í nýja strauma í barna- og unglingabókmenntum með hliðsjón af norrænum rannsóknum og upplýsingamiðlun. Einnig inniheldur það fróðleik um hvernig rannsókna- og miðlunarstarf á sviði norrænna barna- og unglingabókmennta hefur verið fest í sessi og hvernig því er viðhaldið þvert á Norðurlönd. Í ritgerðunum er meðal annars fjallað um hringrás barnabókmennta á Norðurlöndum, því er velt upp hvort norræna myndabókin eldist, norrænar rapsódíur óma með frjálsri aðferð og hugtakið „gæði“ er sett undir smásjá. Textarnir í safnritinu eru á dönsku, norsku og sænsku. Safnritið er það fyrsta í röð þriggja og kom út 2019.
Lesið safnritið „På tværs af Norden: Nye tendenser i børne- og ungdomslitteratu…