Að rækta garðinn sinn – leið til að njóta lífsins 

Texti þýddur úr sænsku

Ég hef tekið eftir því á gönguferðum um hverfið mitt að Reykjavík hefur tekið miklum breytingum frá því í fyrra.  Ég sé minna illgresi í görðum og fleiri nágranna krjúpa yfir blómabeðum.  Það er eins og áhugi okkar á nánasta umhverfi hafi aukist og hlutir sem áður voru aukaatriði séu núna settir í forgang. Á samfélagsmiðlunum er þetta greinilegt, þar úir og grúir af fallegum myndum af blómum úr görðum fólks.

Það er vitað mál að garðyrkja er heilsueflandi. Garðrækt hefur reynst árangursrík meðferð við kulnun og hún hefur verið notuð við endurhæfingu á öldrunarheimilum, í flóttamannabúðum og fangelsum þar sem fólk er undir álagi og glímir við óvissu og kvíða. Það veitir ákveðna núvitund að róta í mold og reyta arfa, hlúa að, fylgjast með og gleðjast yfir skjótum árangri. Frískt loft, sól og líkamleg áreynsla er alltaf af hinu góða.

Því kemur ekki á óvart á þessum skrítnu tímum að fólk skuli leita í garðinn sinn. Það höfum við í Norræna húsinu gert á undanförnum vikum.

Í samvinnu við Norrænu erfðaauðlindastofnunina (NordGen) í Alnarp í Svíþjóð hófum við verkefnið Sáum, sjáum og smökkum.  Ásamt börnum og ungu fólki ætlum við að fræðast um líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra matvælaframleiðslu með því að rækta norrænar tegundir í garði Norræna hússins. Þið getið kannski notið ávaxtanna hjá MATR í sumar en í haust vonumst við til að geta boðið til uppskeruveislu.

Garðurinn, náttúran og garðrækt eru áberandi í norrænum barnabókum þessa dagana. Í vor kom út dásamlega falleg bók í Finnlandi, Hemulens herbarium (ísl. Grasasafn hemúlsins), eftir Päivi Kaataja á finnsku og sænsku. Í glænýrri myndabók eftir Christel Rönn, Jinko och det finurliga fröet (ísl. Jinko og brögðótta fræið), segir frá spennandi ræktunarævintýri með dýrunum í skóginum. Margar nýjar og hvetjandi barnabækur hafa komið út í Svíþjóð um svipað efni. Förtrollad trädgård (ísl. Álagagarður) er falleg bók eftir Ceciliu Ottenby og Tio små blommor (ísl. Tíu lítil blóm) er frumleg talnabók eftir Emmu Virke og Idu Björs.

Nú skulum við finna hugarró og von í náttúrunni, njóta bjartra og langra sumardaga og gróðursins í allri sinni dýrð. Hvort sem hann er að finna í bókum, í gluggakistunni, í matjurtagarðinum eða í garði nágrannans.

Kveðja Sabina