Norræna húsið er eitt mikilvægustu byggingarlistaverka Íslands, eina byggingin frá sínum tíma sem teiknuð var af mikils metnum erlendum arkitekt. Húsið hefur reynst vera af háum gæðum, úr vönduðum efnivið sem stenst tímans tönn og húsið er einnig nútímalegt miðað við sinn tíma hvað varðar tæknilegar lausnir. Staðreyndin situr þó eftir – nú eru 54 liðin síðan Norræna húsið var vígt og húsið er nú eitt fárra bygginga eftir Alvar Aalto sem ekki hefur gengist undir allsherjarendurbætur.
Ástandsskýrsla sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu árið 2021 staðfestir að þörfin sé brýn. Skýrslan sýnir fram á bresti í innviðum hússins sem að miklum hluta til eru upprunalegir. Þónokkrir hlutar hússins, til að mynda flatt þak þess, náðu hámarkslífstíma sínum fyrir mörgum árum síðan. Það gleður mig að Norræna ráðherranefndin hafi strax áttað sig á alvöru málsins og tryggt stofnuninni fjárveitingar fyrir þeim endurbótum sem hvað mest liggur á en þær geta hafist strax í vor. Þar sem að húsið er friðað frá árinu 2004 af Minjastofnun þá er ekki um að ræða endurbætur sem breyta nokkru varðandi ásýnd hússins, heldur snúast endurbæturnar um grunninnviði hússins.
Allir aðilar sem koma að málinu hafa sammælst um mikilvægi þess að húsinu verði ekki lokað alfarið á meðan endurbótunum stendur. Það er þó á hreinu að það mun verða krefjandi að halda starfseminni gangandi á þessu tímabili. Af þessum sökum munum við á komandi tveimur árum fyrst og fremst einbeita okkur að eigin verkefnum og verkefnum sem unnin eru í samstarfi við aðila sem þegar hefur verið stofnað til samstarfs við. Við munum einnig þróa viðburðahald utanhúss og nýta möguleika umhverfisins til fulls.
Mikilvægur hluti starfs okkar mun felast í upplýsingagjöf um framgang endurbótanna. Þeim upplýsingum munum við miðla í gegnum samskiptamiðla okkar og við hlökkum til að leyfa ykkur að fylgjast með. Rannsóknarvinnan um ástand hússins hefur þegar leitt í ljós áhugaverðar staðreyndir sögu og tilurð hússins. Nokkur þessara gullkorna koma fram á ráðstefnunni ”Kvenkyns frumkvöðlar & sögulegar byggingar” þann 5.maí í Norræna húsinu þar sem við fáum að kynnast þeim kvenarkitektum sem léku stórt hlutverk í byggingu Norræna hússins.
Við erum ánægð yfir að eiga kost á þéttu samstarfi við Alvar Aalto stofnunina í Finnlandi, en stofnunin býr yfir mikilli þekkingu um byggingar Alvars Aalto. Á meðan endurbótunum stendur hyggjumst við kortleggja og skrá alla ferla og tímaskeið til þess að stuðla að því að byggingin verði í öruggum höndum í framtíðinni. Það sem skiptir mestu máli er að hið sögufræga hús sé í góðu standi og geti haldið áfram að vera miðpunktur norrænnar listar, menningar og samfélagsumræðu á Íslandi.