Höfundaspjall með Tore Kvæven
15:00
Viðburðurinn í salnum byrjar kl. 15.00 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Silje Beite Løken, menningar- og upplýsingafulltrúi, norska sendiráðsins, stýrir umræðu sem fer fram á norsku.
Eftir samtalið býður Norska sendiráðið upp á vín og tónlist á bókasafninu. Aðgangur er ókeypis.
Verið velkomin!
Árið 2019 verður Noregur heiðursgestur Bókamessunnar í Frankfurt. Bókamessan er sú stærsta sinnar tegundar og er í ár helguð norskum bókmenntum. Í tengslum við þátttöku Noregs og heiðurssætis þeirra býður Norska sendiráðið, í samvinnu við Norræna húsið, upp á tvo norska menningarviðburði; Höfundaspjall með Tore Kvæven & Höfundaspjall með Tomas Espedal.
Tore Kvæven (1969) er norskur sauðfjárbóndi, smiður, kennari og rithöfundur frá Sirdalen. Hann bjó á Íslandi í lok níunda áratugarins. Fyrsta bók Kvæven, spennutryllirinn Hard er mitt lands lov kom út árið 2011 og það tók hann 20 ár að skrifa hana. Bókin tekur á könnunarferðum víkinga til Afríku. Bókin Når landet mørknar kom út árið 2018 og fjallar um byggð norrænna manna á Grænlandi í lok þrettándu aldar. Fyrir þá bók fékk hann Brageprisen. Árið 2013 gaf hann út barnabókina Kameljægeren. Bækur hans hafa hlotið lofsamlega dóma og í ritdómi um Når landet mørknar segir: ”Af mikilli þekkingu á efninu, sannfærandi persónusköpun og lifandi lýsingu á staðháttum setur Kvæven fram hrífandi frásögn af óvægnu og erfiðu lífi á Grænlandi á miðöldum.” (Sigmund Jensen, Stavanger Aftenblad).
Mynd: Tommy Ellingsen