500 skólabörn heimsóttu Barnabókaflóðið

List fyrir alla stóð fyrir skólaheimsóknum ríflega 500 barna úr 2.-5. bekk á sýninguna Barnabókaflóðið í Norræna húsinu. Barnabókaflóðið er gagnvirk sýning um ævintýraheim barnabókmenntanna þar sem börnin fá tækifæri til að nota ímyndunaraflið og semja sína eigin sögu.

Sýningin verður opin til aprílloka 2019.

Vinnustofurnar 
Listrænn stjórnandi sýningarinnar, rithöfundurinn og teiknarinn Kristín Ragna Gunnarsdóttir, tók á móti hópum frá grunnskólum í Reykjavík, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Vogum og Grindavík. Börnin byrjuðu á að klæða sig í búninga og útbjuggu svo sitt eigið vegabréf sem þau stimpluðu í á ferð sinni um völundarhús barnabókanna. Þau hlýddu á ljóðalestur, fóru í ævintýrasiglingu í víkingaskipi inn í heim Norrænnar goðafræði og leystu bráðskemmtileg verkefni. Litskrúðugar sögupersónur spruttu fram, skriðið var inn í skáldafjall og kíkt í bókakrók. Krakkarnir settu saman ljóðlínur, sköpuðu allskyns söguheima og byrjuðu að skrifa eigin ævintýri sem þau geta unnið áfram með í skólanum. Að endingu létu börnin sig dreyma innan um stjörnuþokur og norðurljósadýrð. Í lok heimsóknarinnar voru þau hvött til að æfa sig í að setja sig í spor annarra og halda áfram að skrifa, teikna og lesa spennandi sögur.

Eftir áramót verður boðið upp á leiðsögn um Barnabókaflóðið fyrir skólahópa úr 1.-5. bekk grunnskóla og elstu börn í leikskóla. Leiðsögnin tekur um eina og hálfa klukkustund og mun starfsmaður Norræna hússins sjá um hana. Áhugasamir geta pantað leiðsögn með því að senda tölvupóst á telma@nordichouse.is.