Bókasafn

Bókasafn Norræna hússins er almenningsbókasafn og öllum opið. Bókasafnið hóf starfsemi árið 1969, ári eftir að húsið var vígt. Sérstaða safnins er að þar er eingöngu að finna bókmenntir á norðurlandamálum eftir norræna höfunda, en þó ekki á íslensku nema þýðingar yfir á annað norðurlandamál. Í safninu eru skáldsögur og fræðibækur fyrir börn og fullorðna, tímarit, dagblöð, hljóðbækur, tónlist og rafbækur ásamt norrænum grafíkverkum. Eitt stærsta safn landsins af norrænum kvikmyndum á DVD er í bókasafninu og til útlána. Safnefnið er á sjö tungumálum: dönsku, norsku, sænsku, finnsku, færeysku, samísku og grænlensku.

Einstaklingar, bókasöfn, skólar og stofnanir geta fengið safnefni að láni.

Þjónusta

Hægt er að leita að bókum, kvikmyndum og öðru safnefni bókasafnsins á www.leitir.is

Þeir sem náð hafa 18 ára aldri geta gerst lánþegar.
Lánþegaskírteini kostar 2000 kr. og gildir í 1 ár.
Bækur, hljóðbækur, tímarit og tónlist eru lánuð út í 30 daga.
Kvikmyndir eru lánaðar út í 7 daga.
Grafíkverk eru lánuð út í 3 mánuði.
Dagsektir eru 10 kr. fyrir bækur, hljóðbækur, tímarit og tónlist en 30 kr. fyrir DVD-myndir og grafíkverk.
Glatist eða skemmist safnefni er það rukkað eftir sérstakri gjaldskrá fyrir glatað eða skemmt safnefni.

Barnabókasafn

Leikskólar, grunnskólar og aðrir hópar geta pantað heimsóknir í Norræna húsið og bókasafnið. Bókasafnið er vel útbúið af spilum og leikföngum, púðum og brúðum, bókum og litlum kastala sem gaman er að klifra upp í.

Í barnabókasafni Norræna hússins eru barnabækur, unglingabækur sem og fræðibækur fyrir börn á öllum 7 norðurlandamálunum. Á veturna eru sögustundir fyrir börn á íslensku, sænsku, finnsku, norsku, færeysku, grænlensku og dönsku.

Artótek

Artótek eða listlánadeild bókasafns Norræna hússins á sögu sína að rekja til ársins 1972. Það ár ákvað Bandalag norrænna grafíklistamanna að gefa Norræna húsinu 200 grafíkverk eftir norræna grafíklistamenn sem skyldi verða stofn að listlánadeild. Gjöfin var háð því skilyrði að verkin yrðu lánuð út eins og bækur safnsins.

Útlán hófust árið 1976 og þóttu mikil nýjung og mæltust vel fyrir. Töluvert hefur bæst við safnið frá árinu 1976 og verkin nú á 6. hundrað. Þeir sem eiga lánþegaskírteini í bókasafninu geta fengið 3 grafíkverk að láni í 3 mánuði í senn.