Jonas Eika í samtali við Ísold Uggadóttur

Höfundakvöld

Danski rithöfundurinn Jonas Eika, vinningshafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 í samtali við íslenska kvikmyndaleikstjórann Ísold Uggadóttur. Rithöfundur Hanne Viemose stýrir umræðu sem fer fram á ensku.

Bók Jonas Eika Efter Solen og kvikmynd Isoldar Uggadóttur Andið Eðlilega / And Breathe Normally eru verðlaunaverk sem fjalla um pólitísk mál samtímans í anda félagslegs raunsæis.  Í mynd Ísoldar er viðfangsefnið fátækt, hælisleitendur og fólk á flótta á meðan bókin tekur á vandamálum nútímans út frá öðru sjónarhorni.

Í samtalinu munu Jonas Eika og Ísold Uggadóttir ræða um hvernig þau hafa tekið á pólitísku málum samtímans og þau sjónarmið sem þau taka mið af í listrænni túlkun sinni.

Efter Solen er mörkuð þeim erfiðleikum sem steðja að heiminum í dag. Arðrán og misrétti, örvæntingarfull tilvera og ofbeldisfull og dimm reynsla eru mikilvægir þættir frásagnarinnar. Þó má greina von í formi möguleika á breytingum. Von um að annar heimur sé í raun mögulegur og kannski þegar til staðar, en þurfi að vera vakinn til lífsins og lagður fram. Ef það er rétt að tungumálið sé steingerð ljóðlist, þá virkjar Efter Solen ákafa og sjálfbæra úrvinnslu á eldsneyti tungumálsins, sem er hrífandi í sjálfu sér. En bókin slær einnig nýjan tón fullvissu í bókmenntum sem fást við þau viðfangsefni sem enginn getur sneitt hjá: Áhrif misréttis í heiminum, hnattræna hlýnun og öll hin vandamálin sem herja á jörðina.

Efter Solen hlaut dönsku bókmenntaverðlaunin Den svære Toer, Montana-verðlaunin og Michael Strunge-verðlaunin.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Rökstuðningur dómnefndar: ”Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 er ungur rithöfundur en smásagnasafn hans Efter Solen kom dómnefndinni á óvart og heillaði hana með hnattrænu sjónarhorni, næmum og myndrænum stíl og getu til að tala inn í pólitískar áskoranir samtímans, án þess þó að lesandanum finnist hann á nokkurn hátt leiddur áfram. Jonas Eika skrifar um veruleika sem lesandinn kannast við, hvort sem sögusviðið er Kaupmannahöfn, Mexíkó eða Nevada – meðal spákaupmanna, heimilislausra drengja eða fólks sem trúir á geimverur. En ljóðrænir töfrar liggja í loftinu. Raunveruleikinn opnar á aðra möguleika, aðrar víddir. Þar bíður okkar eitthvað dásamlegt og fullt vonar sem minnir okkur á að bókmenntirnar eru færar um annað og meira en að spegla það sem við þekkjum nú þegar.”