Åsne Seierstad (1. hluti)

Höfundakvöld

Åsne Seierstad (1970) er norskur blaðamaður og rithöfundur. Hún hefur starfað sem fréttaritari fyrir norska og sænska fréttamiðla um heim allan. Seierstad vakti mikla athygli fyrir umfjöllun sína um stríðin í Kosovo, Afganistan og Írak. Seierstad hefur gefið út nokkrar ferðabækur en þekktust er hún líklegast fyrir söguna Bokhandleren i Kabul (Bóksalinn í Kabúl) sem hún skrifaði eftir dvöl sína hjá bóksala og fjölskyldu hans í stríðshrjáðri Kabúl, vorið eftir fall talibana. Sagan er lýsing Åsne Seierstad á fjölskyldu sem leitar að tilveru í hinu nýja Afganistan, á togstreitunni milli hins nútímalega, vestræna og hins hefðbundna. Þetta er frásögn af landi í rústum, en líka af fólki að leita frelsis undan sögu sem er full af stríði og kúgun – í von um betra líf. Fleiri bækur eftir Seierstad hafa komið út sem segja af lífi og lífsbaráttu fólks á stríðshrjáðum svæðum, bókin Hundre og en dag fjallar um hvernig það er að búa og starfa í Írak á stríðstímum. Í bókinni Med ryggen mot verden: Portretter fra Serbia fjallar höfundurinn um ástand mála í Serbíu og í De krenkede er Tjetjenía til umfjöllunar.

Árið 2013 kom bókin En av oss: En fortelling om Norge út sem fjallar um hryðjuverkamanninn Anders Behring Breivik og fjöldamorðin í Útey þann 22. júlí árið 2011. Í bókinni er ekki aðeins sögð saga gerandans heldur einnig saga fórnarlambanna en með bókinni skrifar Seierstad í fyrsta sinn um heimaland sitt, Noreg.

Bækur hennar hafa verið þýddar á fjöldamörg tungumál og í heimalandi sínu hefur hún hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun, eins og Fredrikkeprisen, Bokhandlerprisen og Årets Per Gynt.

Sigurður Ólafsson verkefnastjóri bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs stýrir umræðu sem fer fram á skandinavísku.