Strokkvartettinn Siggi – Opnunartónleikar Myrkra músíkdaga 2020


20.00

Strokkvartettinn Siggi leikur 15. strengjakvartett Dmitri Shostakovich á opnunartónleikum Myrkra músíkdaga, en verkið var leikið fyrir nákvæmlega 40 árum á fyrstu tónleikum hátíðarinnar. Atli Heimir Sveinsson lék þar lykilhlutverk en hann laumaði nótunum til landsins eftir heimsókn sína til Rússlands. Fimmti strengjakvartett Atla Heimis verður frumfluttur á tónleikunum og nýr kvartett Hauks Tómassonar. Einnig verður leikinn kvartett Gunnars Andreasar Kristinssonar Moonbow sem er jafnframt Íslandsfrumflutningur.

Strokkvartettinn Siggi var stofnaður árið 2012 í undirbúningi UNM, Ung Nordisk Musik hátíðarinnar sem það ár var haldin í Reykjavík, og voru fyrstu tónleikarnir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Strokkvartettinn hefur síðan þá verið áberandi í tónleikahaldi og leikið Beethoven og Shostakovich auk fjölda nýrra verka sem samin hafa verið sérstaklega fyrir Sigga. Listamenn Sigga eru virkir sem einleikarar og kammerspilarar og leika í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur. Debut-diskur kvartettsins South of the Circle kom út árið 2019 hjá Sono Luminus útgáfunni bandarísku, og hefur hlotið frábærar viðtökur, meðal annars í Gramophone, San Francisco Chronicle og A Closer Listen. Strokkvartettinn hefur leikið 5 tíma langan kvartett Mortons Feldman í Mengi og vakti athygli á Listahátíð 2018 fyrir frumleg efnistök á ný íslensk strengjahljóðfæri. Strokkvartettinn hefur á þessu starfsári frumflutt fimm ný verk og hlakkar til Myrkra, enda hefur kvartettinn frumflutt tvo af kvartettum Atla Heimis og tvo kvartetta eftir Hauk á ferli sínum, og Dmitri Shostakovich er leikinn reglulega á tónleikum Sigga. Strokkvartettinn skipa: Una Sveinbjarnardóttir og Helga Þóra Björgvinsdóttir á fiðlur, Þórunn Ósk Marinósdóttir á víólu og Sigurður Bjarki Gunnarsson selló.
Siggi hlaut verðlaunin Flytjandi ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum á síðasta ári.

Siggistringquartet.com

Við viljum vekja athygli á að hægt er að kaupa 3 eða fleiri miða á tónleika Myrkra músíkdaga á Tix.is með 20 % afslætti.