Norræni bókaormurinn og málstofan Náttúran og loftslagsbreytingar
10.45
Norræni bókaormurinn // 10:45-11:15
Norræni bókaormurinn (Den nordiska bokslukaren) er nýtt verkefni sem hefur það að markmiði að stuðla að lestri norrænna barnabókmennta. Það verður gert með því að búa til kennsluefni út frá norrænum myndabókum og kynna þannig börnin fyrir þeim fjársjóði sem norrænar barnabókmenntir hafa að geyma. Mikaela Wickström frá Nordisk kulturkontakt í Finnlandi segir frá verkefninu.
Náttúran og loftslagsbreytingar // 11:15-12:15
Hvernig skrifar maður barnabækur um loftslagsbreytingar? Hvernig geta barnabækur hjálpað okkur að stuðla að sterkari samkennd milli manna og lífríkis? Eru sum bókmenntaform hentugri en önnur til þess að miðla sýn höfunda á vandanum? Loftslagsbreytingar eru raunveruleiki sem ógnar vistkerfum og samfélagi manna og ljóst er að ungir lesendur munu fá að reyna afleiðingar þeirra á dýpri hátt en þau sem eldri eru. Í þessari málstofu ræða höfundar barnabóka og fræðimenn um nálganir og áskoranir við að miðla raunveruleika loftslagsbreytinga til lesenda. Þátttakendur eru Eva Rún Þorgeirsdóttir (IS), Guðni Elísson (IS), Hildur Knútsdóttir (IS), Kristin Roskifte (NO) og Sævar Helgi Bragason (IS). Stjórnandi er Sólveig Ásta Sigurðardóttir.