Dagur Norðurlanda 23. mars 2016


17:00

Dagur Norðurlanda 23. mars 2016

 

Norræna félagið og Norræna húsið bjóða til móttöku í Norræna húsinu, miðvikudaginn 23. mars kl 17:00 – 18:30, í tilefni af degi Norðurlanda.

 

Dagskrá:

– Bogi Ágústsson, formaður Norræna félagsins býður gesti

velkomna.

– Elísabet Jökulsdóttir, tilnefnd til Bókmenntaverðlauna

Norðurlandaráðs 2016 les upp úr bók sinni.

– Teitur Magnússon, tilnefndur til Norrænu tónlistarverðlaunanna

2016 flytur eigin tónlist.

– Veitt verða gullmerki Norræna félagsins.

 

Léttar veitingar í boði.

Allir velkomnir!

Örlítið um dag Norðurlanda:

 

Hefð hefur skapast fyrir því meðal Norðurlandaþjóða að halda 23. mars hátíðlegan og lyfta sér upp í tilefni af degi Norðurlanda. Þá er því fagnað að 23. mars, árið 1962, hittust fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna í höfuðborg Finnlands til að skrifa undir samning um samstarf þjóðanna. Sá samningur nefnist Helsinkisáttmálinn og lýtur að samstarfi Norðurlanda á sviði réttarfars, menningarmála, félagsmála, efnahagsmála, samgangna og umhverfisverndar.

 

Helsinkisáttmálinn kveður á um fjölmörg gagnkvæm réttindi Norðurlandabúa, sem við höfum um áratugaskeið vanist og lært að taka sem sjálfsögðum hlut, m.a. hvað snertir ferðir og viðskipti milli landanna sem og búferlaflutninga til hinna Norðurlandanna. Í sáttmálanum segir að við setningu laga skuli ríkisborgarar annarra Norðurlanda njóta sömu réttinda og ríkisborgarar viðkomandi lands.

 

Norðurlandasamstarfið byggir á samkennd meðal þeirra íbúa sem löndin byggja. Samstarfið hefur frá upphafi verið víðtækt og þverpólitískt og í því felst einmitt styrkur þess.