Klassík í Vatnsmýrinni; Ástir og draumar kvenna
20:00
Klassík í Vatnsmýrinni 2015
í Norræna húsinu
11. nóvember kl. 20:00
Ástir og draumar kvenna
Auður Gunnarsdóttir, sópran
Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó
Síðustu tónleikar þessa starfsárs í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni, verða haldnir miðvikudaginn 11. nóvember kl. 20:00 í Norræna húsinu. Þar munu konur vera í aðalhlutverkum. Flytjendur eru þær Auður Gunnarsdóttir sópransöngkona og píanóleikarinn Helga Bryndís Magnúsdóttir. Þær munu flytja sönglög eftir Hjálmar Helga Ragnarsson, Robert Schumann, Ermano Wolf-Ferrari og Joaquin Turina. Í ljóðunum er skyggnst inn í hugarástand nokkurra kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að elska mjög…heitt. Hvort sem það er á íslensku, þýsku, ítölsku eða spænsku, elskar konan og dáir sinn heittelskaða ákaft. Það dugir þó ekki alltaf til eilífrar sælu, gleðin og sorgin haldast þétt í hendur.
Auður Gunnarsdóttir hóf nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk MA-prófi í ljóða- og óperusöng frá Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Stuttgart. Auður var fastráðin við óperuhúsið í Würzburg þar sem hún söng mörg helstu sópranhlutverk óperu¬bókmenntanna. Hún hefur einnig komið fram í mörgum helstu óperuhúsum Þýskalands auk Íslensku óperunnar, haldið fjölda ljóðatónleika, og komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum sinfóníuhljómsveitum í Þýskalandi. Jafnframt hefur Auður sungið inn á nokkra geisladiska.
Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari lauk kennara- og einleikaraprófi árið frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í Vínarborg og Helsinki. Hún hefur eftir að námi lauk haldið fjölda einleikstónleika og tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi, leikið með einsöngvurum og kórum, kammersveitum og leikið einleik með bæði Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Helga Bryndís er meðlimur í Caput hópnum og starfar nú sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og tónlistarskólana í Reykjanesbæ og Kópavogi.
Aðgangseyrir á tónleikana er 2000 kr en 1000 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og félagsmenn FÍT – klassískrar deildar FÍH. Sérstaklega er hvatt til aðsóknar ungs fólks með því að veita tónlistarnemum og öllum 20 ára og yngri ókeypis aðgang að tónleikunum.
Um tónleikaröðina
Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Tónleikaröðin leggur áherslu á norrænt og alþjóðlegt samstarf. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á „einleikarann” annars vegar og „kammertónlist” hins vegar. Til ánægjuauka fjalla flytjendur um efnisskrána á tónleikunum.
Starfsárið 2015 er að hluta til helgað söngkonum í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Jafnframt höfum við fengið afar góða gesti og tónlistarmenn í fremstu röð frá Norðurlöndum. Sólrún Bragadóttir söngkona reið á vaðið í apríl ásamt meðleikara sínum Gerrit Schuil. Í júní kom finnska dúóið Marko Ylönen og Martti Rautio og léku á selló og píanó, og í september sótti sænska sópransöngkonan Gitta-Maria Sjöberg og danski píanóleikarinn Irene Hasager okkur heim. Jón Sigurðsson lék fyrir okkur heila dagskrá með verkum eftir hið merka píanótónskáld, Alexander Scriabin. Starfsárinu lýkur nú með tónleikum Auðar Gunnarsdóttur sópran og Helgu Bryndísar Magnúsdóttur píanóleikari.
Stjórn tónleikaraðarinnar sér um framkvæmd og skipulagningu auk listrænnar stjórnunar. Tónleikastjórn skipa: Kristín Mjöll Jakobsdóttir, Hlíf Bente Sigurjónsdóttir og Anna Jónsdóttir.