Klassík í Vatnsmýrinni-Knúið að dyrum


20:00-21:30

Klassík í Vatnsmýrinni

Knúið að dyrum í Sal Norræna hússins 15. nóvember kl. 20:00-21:30

Wunderhorn tríóið, Sesselja Kristjánsdóttir mezzósópran, Ágúst Ólafsson barítón og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari flytja dúetta og ljóð eftir Johannes Brahms, Franz Schubert, Gustav Mahler og Antonin Dvořák.

MIÐASALA

Sesselja Kristjánsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín. Hún var styrkhafi Richard Wagner samtakanna í Þýskalandi sumarið 2000 og hóf óperuferil sinn við National Reisoper í Hollandi. Sesselja hefur verið mjög virk í íslensku tónlistarlífi og hefur sinnt flutningi óperu-,ljóða-,óratoríu-, og kammertónlistar jöfnum höndum. Hún hefur komið fram á fjölda tónleika hér heima og erlendis m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmoníusveit Sankti Pétursborgar og Kammersveit Reykjavíkur. Við opnun Hörpu árið 2011 tók hún þátt í flutning níundu sinfoníu Beethovens með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Meðal hlutverka hennar á óperusviðinu eru Rosina í Rakaranum í Sevilla, Carmen, Cherubino í Brúðkaupi Figarós Öskubuska í samnefndri óperu Rossinis, þriðja dama í Töfraflautunni, Charlotte í Werther, Betlikerlingin í Sweeney Todd, Lola í Cavalleria Rusticana og Maddalena í Rigoletto.

Ágúst Ólafsson hefur frá því hann kom heim frá námi við Síbelíusarakademíuna í Helsinki haslað sér völl sem einn fremsti ljóða og óperusöngavari landsins. Nú í vor flutti Ágúst, með aðeins viku fyrirvara, Vetrarferð Schuberts með Ralf Gothoni í Finnlandi.  Um frammistöðu hans sagði gagnrýnandi Helsingin Sanomat, stærsta dagblaðs Finnlands ,,Ólafsson created a huge scale of emotions with his infinitely multifaceted and many timbred voice.”

Hlutverk Ágústs hjá Íslensku óperunni eru m.a. titilhlutverkið í Sweeney Todd, Papagenó, Nick Shadow í Rake´s Progress, Séra Torfi í Ragnheiði Gunnars Þórðarsonar og Belcore í Ástardrykknum sem færði honum Grímuverðlaun sem söngvari ársins 2009. Ágúst flutti söngljóðaflokka Schuberts ásamt Gerrit Schuil á tónleikum Listahátíðar 2010 og hlutu þeir fyrir það íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjendur ársins. Ágúst vann einnig til íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngvari ársins í sígildri og samtímatónlist 2013. Hann hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu, til að mynda í Filharmonie Berlín og Wigmore Hall og sungið undir stjórn Hannu Linttu, Petri Sakari og Paul McCreesh.

Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk píanókennara- og burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar diplóma- og einleikaraprófi frá tónlistarháskólanum í Árósum í Danmörku. Þaðan lá leiðin til Lundúna þar sem hún stundaði MA nám í meðleik við The Royal Academy of Music. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn, hlaut DipRAM og The Christian Carpender Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri verið virk í flutningi kammer- og ljóðatónlistar og hefur þar að auki frumflutt fjölda íslenskra og erlendra verka, m.a. á Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London.

Um tónleikaröðina

Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Markmiðið með tónleikaröðinni er að gefa áheyrendum tækifæri til að hlýða á fyrsta flokks innlenda og erlenda listamenn með áherslu á einleikarann annars vegar og kammertónlist hins vegar. Tónleikaröðin stendur auk þess fyrir norrænu og alþjóðlegu samstarfi og hefð er fyrir því að flytjendur kynni og fjalli um efnisskránna á tónleikunum. Á starfsárinu 2016 – 2017  eru fimm tónleikar, tvennir með erlendum gestum og þrennir með íslensku listafólki úr röðum félagsmanna FÍT.

Aðgangseyrir á tónleikana er 2500 kr en 1500 kr fyrir eldri borgara, öryrkja og félagsmenn FÍT – klassískrar deildar FÍH.

Sérstaklega er hvatt til aðsóknar ungs fólks með því að veita tónlistarnemum og öllum 20 ára og yngri ókeypis aðgang að tónleikunum.

Stjórn tónleikaraðarinnar sér um framkvæmd og skipulagningu auk listrænnar stjórnunar. Tónleikastjórn skipa: Hlíf Sigurjónsdóttir, Sigurður Bragason og Anna Jónsdóttir.