ÍSLENSK GRAFÍK – Afmælissýning
10-17 Lokað á mánudögum
Félagið Íslensk grafík fagnar nú 50 ára afmæli sínu og í tilefni þess var opnuð sýning á verkum 46 félagsmanna í Norræna húsinu laugardaginn 16. maí 2020.
Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.
Verk félagsmanna eru unnin með ýmsum aðferðum grafíklistarinnar. Sýningunni er ætlað að fagna starfsemi Íslenskrar grafíkur og þeirri breidd í aðferðum og tækni sem félagsmenn hafa tileinkað sér á löngum og farsælum starfstíma félagsins. Á sýningunni verða einnig valin verk heiðursfélaga Íslenskrar grafíkur.
Uppgangur hefur verið í grafíklistinni á undanförnum árum á Íslandi og í nágrannalöndunum. Það er mikið fagnaðarefni hversu vel grafíkin hefur haldið velli sem listgrein og heldur áfram að eflast. Félagsmönnum í Íslenskri grafík hefur fjölgað töluvert á síðastliðnum áratug og eru þeir nú um hundrað talsins.
Fjölmargar af sýningum Íslenskrar grafíkur hafa verið haldnar í Norræna húsinu, allt frá upphafsárum félagsins. Þykir okkur því viðeigandi og ánægjulegt að halda afmælissýninguna í sýningarsalnum Hvelfingu sem nýlega var opnaður á neðri hæð Norræna hússins eftir endurbætur.
Félagið Íslensk grafík, sem einnig er kallað Grafíkfélagið, var stofnað í núverandi mynd árið 1969 og hefur starfað óslitið síðan. Upphaf þess má þó rekja til ársins 1954. Félagið er hagsmunafélag og fagfélag myndlistarmanna sem leitast við að efla tæknilega og listræna færni sína í grafíkinni og finna sköpun sinni þar farveg. Félagið hefur um árabil rekið sýningarsal og vel búið verkstæði sjávarmegin í Hafnarhúsinu í Reykjavík en heldur senn á nýjar slóðir með starfsemi sína. Meðal meginmarkmiða félagsins er að stuðla að framgangi grafíklistar hér á landi með sýningahaldi á verkum félagsmanna hérlendis og erlendis og að kynna erlenda grafíklist á Íslandi. Félagið hefur í gegnum tíðina staðið fyrir heimsóknum fjölda erlendra grafíklistamanna til landsins og hafa námskeið þeirra í ýmiskonar grafíktækni haft mikilvægt menningar- og fræðslugildi. Sýningar félagsins á verkum þeirra hafa jafnframt haft mikil áhrif á listamenn og aðra listunnendur hér á landi. Verkin á sýningunni í Norræna húsinu endurspegla þá miklu fjölbreytni sem ríkir í listsköpun félagsmanna og nálgun þeirra við grafíkina og er afmælisóður til félagsins Íslensk grafík á hálfrar aldar afmælinu.
Til hamingju með afmælið og heill þér fimmtugri, Íslensk grafík!
-Birta Guðjónsdóttir
Mynd í banner er samsett af verki Bjargar Þorsteinsdóttur (1940–2019) Óskasteinar frá árinu 1986 og lógói félagsins eftir Jón Engilberts (1908-1972) frá árinu 1970.
Fáðu myndlist að láni í Artoteki Norræna hússins
Listlánadeild bókasafns Norræna hússins er glæsilegt safn grafík listaverka eftir norræna grafíklistamenn. Með aðeins lánþegaskírteini í bókasafninu geta allir fengið 3 grafíkverk að láni í 3 mánuði í senn. Vertu velkomin til okkar í Artotek Norræna hússins til að skoða úrvalið.