Hvernig teikna ég sögu?
13:00 - 15:00
Öll fjölskyldan er velkomin á vinnustofu þar sem Elín Elísabet, myndlistarmaður og teiknari, kennir léttar aðferðir til að byrja á sögu.
Það verða sér æfingar í boði fyrir yngstu og aðrar æfingar fyrir eldri gesti. Elín gefur góð ráð í ferlinu og miðlar af sinni reynslu. Elín mun sýna gestum hvernig hægt er að gera teiknaða karaktera byggða á okkur sjálfum og kennir hvernig hægt er að gera þá auðþekkjanlega á silhúettunni eða skuggamyndinni, einni saman. Gestir verða hvattir til að nýta eigið daglega líf sem innblástur fyrir efnivið í sögur.
- Hvað borðaði ég í morgunmat?
- Hvað var það skrítnasta sem ég sá í gær?
- Hvað gerir mig einstaka/n/t?
Elín Elísabet (f. 1992) er myndlistarmaður og teiknari sem starfar að mestu í Reykjavík og á Borgarfirði eystri. Elín útskrifaðist úr Teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík árið 2016 og hefur síðan þá starfað sjálfstætt við fjölbreytt verkefni tengd teikningu og list, m.a. myndasögugerð, sýningahald, myndlýsingu bóka og snarteikningu. Hún bætti við sig BA gráðu í Myndlist í Listaháskóla Íslands árið 2024 og fæst þessa dagana helst við olíumálverk og ljóð. www.elinelisabet.com
Opnunartími og aðgengi: Barnabókasafn Norræna hússins er öllum opið, aðgengi fyrir hjólastóla er í með lyftu og þaðan í gegnum sýningarrýmið Hvelfingu. Aðgengilegt salerni og skiptiaðstaða er á aðalhæð hússins. Starfsfólk bókasafns veitir frekari upplýsingar og aðstoð sé hennar þörf. Opnunartími er ÞRI-SUN kl. 10:00-17:00. Aðgangur að bókasafninu og öllum viðburðum er ókeypis.