
Hvernig segi ég sögu?
10:00-17:00
Velkomin á sýningu á verkum barna á Barnamenningarhátíð!
Hvernig tala ég um sögu?
Sýning á verkum barna gerð út frá leiðbeiningum unglinga.
Sýningin Hvernig tala ég um sögu? sýnir verk sex ára barna sem þau unnu út frá leiðbeiningum unglinga í elstu bekkjum Hólabrekkuskóla. Verkin eru afrakstur langtímaverkefnis sem tengist aðferðum Norræna bókagleypisins.
Nemendur tíundu bekkjar lærðu um Norræna bókagleypinn (bokslukaren.org) í gegnum heimsókn á sýninguna Tréð – sem stendur nú yfir á barnabókasafni Norræna hússins. Á sýningunni má sjá teikningar og myndskreytingar mismunandi norrænna myndabóka. Allar bækurnar hafa hlotið eða verið tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og til er kennsluefni á íslensku á síðu Norræna bókaormsins (bokslukaren.org) um hverja bók.
Nemendur tíunda bekkja fengu fræðslu og gerðu æfingar í aðferðum Norræna bókagleypisins, ásamt því að þjálfa sig í sjónlæsi með því að lesa í myndir bókanna. Með aðstoð kennsluefnis á íslensku gátu þau áttað sig á því um hvað bækurnar fjölluðu þó svo að þær væru á norrænum tungumálum. Að lokinni þjálfun í sjónlæsi og æfingum í við gerð fræðsluefnis – hélt verkefnið áfram í skólanum í samstarfi við umsjónarkennara og völdu nemendur tíundu bekkja sér íslenskar myndabækur sem þau skrifuðu um og gerðu kennsluefni fyrir yngsta bekk skólans. Fræðslufulltrúi Norræna hússins ásamt myndhöfundi mættu svo í Hólabrekkuskóla og aðstoðuðu sex ára bekk við skapandi útfærslu verkefnanna sem unglingadeild hafði sett fyrir.
Afraksturinn er sýning á verkum barna sem hægt er að sjá á barnabókasafni og bókasafni Norræna hússins en einnig verður hægt að sjá verkefnin og fyrirmælin sem tíundi bekkur lagði fyrir þau.
Sýningin hentar til leiðsagnar hópum frá 3 ára aldri. Hægt er að bóka leiðsögn fyrir hópa í gegnum bókunarsíðu Norræna hússins : https://nordichouse.is/born-og-ungmenni/ eða með því að senda tölvupóst á: hrafnhildur@nordichouse.is.
Opnunartími og aðgengi: Barnabókasafn Norræna hússins er öllum opið, aðgengi fyrir hjólastóla er í með lyftu og þaðan í gegnum sýningarrýmið Hvelfingu. Aðgengilegt salerni og skiptiaðstaða er á aðalhæð hússins. Starfsfólk bókasafns veitir frekari upplýsingar og aðstoð sé hennar þörf. Opnunartími er ÞRI-SUN kl. 10:00-17:00. Aðgangur að bókasafninu og öllum viðburðum er ókeypis.