
FUGLAR – sumarsýning á barnabókasafni
Sumarsýningin á barnabókasafni Norræna hússins byggist á bókinni Fuglar eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring. Á sýningunni verða dregnir fram þrettán fuglar sem eiga sér heimili eða hafa staldrað við í Vatnsmýrinni fyrir utan Norræna húsið – sem einnig er fuglaverndunarsvæði. Gagnvirkt fræðsluefni sem tengist fuglum verður aðgengilegt á sýningunni en einnig verða skipulagðar smiðjur og sögustundir á meðan á sýningunni stendur.
,,Bókin dregur fram helstu sérkenni fugla í máli og myndum, án þess að taka sig of alvarlega og niðurstaðan er einstök og óvenjuleg en um leið fræðandi bók um íslenska fugla. “
Bókin kom út árið 2017 hjá Angustúru. Hún hefur hlotið Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í flokki myndlýsinga og verðlaun FÍT fyrir myndlýsingar ásamt því að hafa verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Leikskóla,- skóla- og frístunda hópar geta bókað ókeypis leiðsögn með fræðslufulltrúa með því að senda beiðni á hrafnhildur@nordichouse.is.
OPNUNARTÍMI OG AÐGENGI: Barnabókasafn Norræna hússins er öllum opið, aðgengi fyrir hjólastóla er í með lyftu og þaðan í gegnum sýningarrýmið Hvelfingu. Aðgengilegt salerni og skiptiaðstaða er á aðalhæð hússins. Starfsfólk bókasafns veitir frekari upplýsingar og aðstoð sé hennar þörf.