Frumflutningar í 15:15 tónleikasyrpunni


15:15

Frumflutningar í 15.15

Duo Harpverk og Áshildur Haraldsdóttir halda tónleika í 15:15 tónleikasyrpunni í Norræna húsinu sunnudaginn 11. október kl. 15:15. Yfirskrift tónleikanna er Frumflutningar, en á tónleikunum munu þau frumflytja verk eftir tónskáld frá Bandaríkjunum, Írlandi, Ungverjalandi auk Íslands, allt verk skrifuð sérstaklega fyrir þau.

Duo Harpverk, skipað hörpuleikaranum Katie Buckley og slagverksleikaranum Frank Aarnink var stofnað árið 2007.  Markmið Dúosins er að panta og flytja tónlist fyrir hörpu og slagverk, en frá upphafi hafa þau pantað yfir 60 verk eftir tónskáld frá Íslandi, Danmörku, Englandi, Ástralíu og Bandaríkjunum. Þótt þau hafi flutt mörg verk eftir reynd tónskáld hefur dúettinn lagt áherslu á að panta og að flytja tónlist ungra íslenskra tónskálda. Duo Harpverk hefur m.a. leikið á Myrkum Músíkdögum 2007 – 2010, Iceland Airwaves hátíðinni árið 2009, með kammersveitinni Ísafold, Kirkjulistahátíð 2010, Ung Nordisk Musik 2007, 100 ára afmælishátíð Hafnarfjarðar 2008, Sumartónleikaröð Sólheima 2008, og áður nokkra tónleikar á 15:15 tónleikasyrpunni í Norræna húsinu. Dúó Harpverk hefur einnig farið í tónleikaferðir um Holland, Færeyjar, Danmörku og Bandaríkin og m.a. komið fram á tónlistarhátíðinni Open Days í Danmörku, Iceland Music Days í Hollandi, Nordic Cool í Bandiríkjunum,
og á tónlistarhátíðum vítt og breitt um Ísland. Í júní 2015 kom Harpverk fram sem einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. www.duoharpverk.com

Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi um áraraðir bæði sem einleikari og flautuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.