Höfundakvöld með Vónbjørt Vang
15:00
Við bjóðum handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025, Vónbjørt Vang velkomin í Norræna Húsið!
Gísli Magnússon kynnir og munu þau ræða skrif Vang og kafa dýpra í nýjasta og verðlaunaða verk hennar, Svört Orkídea (e. Svørt Orkidé).
Rökstuðningur dómnefndar:
Verkið fjallar um ótta móður við að missa unglingsson sinn, sem er að fullorðnast og feta sínar eigin leiðir – og fer hugsanlega villur vegar. Ljóðin hverfast um spurningar á borð við: Hvenær á sonurinn sig sjálfur og hættir að tilheyra móðurinni? Hvenær á hún sig sjálf og er ekki bara móðir? Hvenær er nokkur manneskja heil og óskipt – og er yfirhöfuð hægt að verða það?
Verkið hefur sterka sjónræna vídd og geymir fjölmörg lög merkingar og efnisleika. Blaðsíðurnar eru skreyttar klippimyndum eftir skáldið sem eru samsettar úr textum og myndum úr öðrum verkum. Þessi notkun á brotum og sjónrænum þáttum undirstrikar hið klofna og leitandi í upplifun móðurinnar – tilraunir hennar til að koma orðum að því ósegjanlega. Þannig kemur Svørt orkidé („Svört orkídea“, hefur ekki komið út á íslensku) orðum að samspili sjálfsmyndar og raunveruleika: Hver er móðirin þegar barnið fjarlægist hana? Og hver er rithöfundurinn þegar tungumálið á engin orð lengur?
Textinn skrifar sig inn í hefð nýlegra bókmenntaverka um móðurhlutverkið með því að fjalla um þau og vísa til þeirra. Slíkar bókmenntir skapa útgangspunkt fyrir leit verksins að formi og merkingu í sorginni. Um leið snertir bókin á viðfangsefnum sem eru afar brýn í nútímasamfélagi – um gölluð kerfi og um ungmenni sem glíma við æ meiri vanlíðan.
Vónbjørt Vang (fædd 1974) er eftirtektarverð rödd í færeyskum bókmenntum. Fyrsta ljóðabók hennar, Millumlendingar, kom út 2011 og Djúpini kom út árið 2017. Í verkum sínum fjallar hún um djúp mannleg tengsl og setur í samhengi staðar og tíma. Árið 2023 sendi hún frá sér bókina Úr loggbókunum, samhliða Svørt orkidé, þar sem ritunarferli höfundarins er lýst með persónulegum, íhugulum og ljóðrænum hætti.
Samtalið fer fram á dönsku og er stýrt af Gísla Magnússyni, sem er prófessor í dönskum bókmenntum við Háskóla Íslands.