Esseyja / Island Fiction: Útgáfuhóf
16:30
Verið velkomin á útgáfuhóf bókarinnar Esseyja / Island Fiction í Norræna húsinu, þriðjudaginn 14. nóvember á gosafmæli Surtseyjar. Í þessari fallegu útgáfu er fléttað saman listaverkum, ferðasögum og textum sem fjalla um margslungnar hliðar á tilveru og sögu Surtseyjar í 60 ár.
Húsið opnar kl. 16:30 þar sem gestir geta nælt sér í árituð eintök og dagskráin hefst kl. 17:00 þegar allir þátttakendur í bókinn munu flytja hluta úr verkum sínum.
Esseyja er þverfaglegt ritverk eftir myndlistarkonuna Þorgerði Ólafsdóttur sem ferðaðist til Surtseyjar sumarið 2021. Í samspili við myndlistarverkin í bókinni eru esseyjur eftir fjórar fræðikonur og rannsakendur; Birnu Lárusdóttur, íslensku- og fornleifafræðing, Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur, umhverfisheimspeking, Þóru Pétursdóttur, fornleifa-og minjafræðing og Becky Forsythe sýningastjóra.
Í bókinni fá lesendur að skyggnast inn í marglaga veröld Surtseyjar út frá sjónarhorni myndlistar, upplifun af náttúru, hugmyndum um fjarlægar eyjar, menningar- og náttúruminjar á mannöld og hvernig við getum tengst stað sem ekki er hægt að heimsækja. Fyrir útgáfuna veita Þorgerður og Gunndís Ýr Finnbogadóttir myndlistarkona, lesendum innsýn í nýtt verk sem byggir á viðtölum við ólíka hópa Surtseyjarfara og fjallar um upplifun fólks af Surtsey.
Útgáfan er vegleg, tvöhundruð blaðsíður á lengd og er bæði með íslenskum og enskum texta. Hönnuður bókarinnar er Elín Edda Þorsteinsdóttir, grafískur hönnuður og myndskreytir. Bókin er gefin út í samstarfi við rannsóknarverkefnið Relics of Nature sem Þorgerður og Þóra eru einnig þátttakendur í.
Í tengslum við útgáfuna og gosafmæli Surtseyjar, hefur Þorgerður sett upp verkið Spor á Kömbunum, þar sem vel sést til Surtseyjar í björtu veðri. Verkið er hluti af Sequences XI myndlistarhátíð sem fer fram í Marshallhúsinu, Safnahúsinu á Hverfisgötu og Norræna húsinu.
Styrktarðaðilar þessa útgáfuverks eru Relics of Nature, Háskólinn í Osló (UiO), Rannsóknarmiðstöð Noregs, Umhverfisstofnun, Rannís – starfslaunasjóður myndlistarmanna, Myndlistarsjóður og Bókmenntassjóður.
Aðgengi: Elissa salur hefur gott aðgengi fyrir hjólastóla og aðgengileg salerni eru á aðalhæð hússins. Öll salerni hússins eru kynhlutlaus. Þessi viðburður fer fram á ensku og íslensku.