Dúettinn Singimar


15:00

Um er að ræða nýlegt samstarfsverkefni þeirra Inga Bjarna Skúlasonar píanóleikara og Sigmars Þórs Matthíassonar kontrabassaleikara. Um árabil hafa þeir leikið tónlist saman í hinum ýmsu hljómsveitum/verkefnum, þar má helst nefna jazzþjóðlagasveitina Silfurberg og dægurlagahljómsveitina Dægurflugurnar.

Sumarið 2013 komu þeir þó í fyrsta skipti fram sem Dúettinn Singimar. Þar kanna þeir ótroðnar slóðir dúó formsins með tilheyrandi frjálsleika og fagurheitum. Engin tónlist er Singimari óviðkomin, Singimar spilar allt frá sænskri þjóðlagatónlist til hins argasta jazz og allt þar á milli. Megináherslan er þó alltaf á spunann þar sem leikið er af fingrum fram í hinu opna og óútreiknanlega umhverfi dúó formsins. Þeir félagar búa yfir gríðarlega stórum lagabunka – íslensk, erlend, popp, rokk eða jazz. Þar sem Sigmar og Ingi eru búsettir sitthvoru megin Atlantshafsins yfir vetrartímann er augljóslega ekki mikið um tónleikahald. Því vilja þeir nýta tímann sem best á Íslandi yfir sumarið og spila eins mikið og þeir geta.

Sérstakur gestur á Pikknikk tónleikunum í Norræna húsinu verður söngkonan Jóhanna Elísa Skúladóttir, systir Inga Bjarna.

Ingi Bjarni lagði stund á jazz-píanó nám í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan árið 2011. Þar að auki var hann eina önn sem skiptinemi í Ingesund Musikhögskola (Svíþjóð) í gegnum Nordpuls prógrammið. Nú stundar hann enn frekara jazzpíanónám í Konunglega Tónlistarháskólanum (Koninklijk Conservatorium) í Den Haag, Hollandi. Þar eru kennarar hans á meðal annara Jasper Soffers, Juraj Stanik og Eric Gieben.

Allt frá því að hann byrjaði að læra í Tónlistarskóla FÍH hefur hann verið virkur tónlistarfytjandi. Sumarið 2010 var hann meðlimur í hljómsveitinni Silfurberg sem spilaði norræn þjóðlög í eigin útsetningum um götur Reykjavíkur. Ingi Bjarni leikur einnig með Eyjafalla Experience sem er samstarfsverkefni íslenskra og sænskra jazztónlistarmanna. Eyjafalla Experience hefur spilað tónlist sína í Svíþjóð, Hollandi og á Reykjavík Jazz Festival.

Í stuttu máli mætti segja að Ingi Bjarni hefur leikið eigin tónsmíðar með fjölda fólks á Íslandi, Svíþjóð og í Hollandi. Í Hollandi vinnur hann ákaft með kvartett sínum sem hyggst taka þátt í Leiden Jazz Award, en það er hljómsveitakeppni fyrir jazzhljómsveitir innan tónlistarháskóla í Hollandi. Árið 2013 spilaði íslenska tríóið hans Skarkali á Jazzhátíð Reykjavíkur og tók síðan þátt fyrir Íslands hönd í Young Nordic Jazz Comets sem haldin var í Þrándheimi, Noregi.

Ásamt því að vera virkur tónlistarflytjandi hefur Ingi Bjarni fengist við kennslu og undirleik. Ber þá helst að nefna haustið 2011 þegar hann leysti Sunnu Gunnlaugsdóttur jazzpíanóleikara af í Listaskóla Mosfelssbæjar.

Á síðasti ári var Ingi Bjarni tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013 í flokkinum bjartasta vonin í sígildri-, samtímatónlist og djassi. Nánari upplýsingar um Inga Bjarna má finna á heimasíðu hans: www.ingibjarni.com

Sigmar Þór byrjaði að spila á bassa þegar hann var um 15 ára gamall. Samhliða menntaskólanámi stundaði hann nám í rafbassaleik við Tónlistarskóla Árbæjar í fjögur ár. Haustið 2007 komst hann svo inn í Tónlistarskóla FÍH sem var hans aðalnám til ársins 2012. Veturinn 2007-2008 sótti Sigmar þó einnig hljóðvinnslunámskeið í Tónvinnsluskóla Þorvaldar Bjarna og útskrifaðist þaðan í mars 2008 með tvær alþjóðlega viðurkenndar Pro Tools gráður.

Sigmar lauk framhaldsprófi í rafbassaleik vorið 2011 og útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2012 með burtfararpróf. Á burtfarartónleikum sínum flutti hann einungis frumsamda tónlist fyrir jazzkvintett. Þess má geta að á lokaári sínu í Tónlistarskóla FÍH var Sigmar þess heiðurs aðnjótandi að hljóta skólastyrk í formi niðurfellingu á skólagjöldum. Í millitíðinni fór hann til Danmerkur haustið 2011 og var í skiptinámi við The Royal Academy of Music í Árósum.

Í dag stundar Sigmar framhaldsnám í tónlist við The New School for Jazz and Contemporary Music í New York borg í Bandaríkjunum.

Sigmar hefur komið víða fram við hin ýmsu tækifæri á undanförnum árum. Þar ber helst að nefna hljómsveitina Hvar er Mjallhvít?. Sú sveit gaf út breiðskífu á vegum útgáfufyritækis Rúnars heitins Júlíussonar, Geimsteins, árið 2008 og hlaut ágæta dóma. Ásamt því hefur Sigmar spilað með hinum ýmsu sveitum við allskyns tækifæri, m.a. á Jazzhátíð Reykjavíkur, Blúshátíðum í Reykjavík og Höfn í Hornafirði og Iceland Airwaves. Hann hefur einnig starfað mikið sem „session“ leikari og leikið undir hjá mörgum af þekktustu dægurlagasöngvurum Íslands. Sumarið 2010 starfaði önnur hljómsveit sem Sigmar er meðlimur í, Silfurberg, sem Sumarlisthópur hjá Hinu húsinu. Þá fékkst hljómsveitin við að æfa, útsetja og flytja sínar eigin útgáfur af norrænum þjóðlögum víðsvegar um Reykjavíkurborg við góðan orðstír. Haustið 2012 tók hann þátt í starfi Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og spilaði á kontrabassa með sveitinni á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu þann 30.október 2012. Flutt var verkið Pláneturnar eftir Gustav Holst.

Síðustu ár hefur Sigmar gert meira af því að koma fram með eigin hljómsveitum sem flytja frumsamda tónlist eftir hann. Þar má nefna tónleika á vegum Jazzklúbbsins Múlans í Norræna húsinu og Hörpu og jazztónleikaröðina á Kex Hostel.

Ásamt því að vera virkur tónlistarflytjandi hefur Sigmar starfað mikið við tónlistarkennslu. Haustið 2008 hóf hann störf við sinn gamla skóla, Tónlistarskóla Árbæjar og kenndi þar á rafbassa ásamt því að sjá um alla samspilshópa skólans. Haustið 2012 fékk hann svo kennslustöðu hjá Skólahljómsveit Grafarvogs. Þar kenndi hann á rafbassa auk bóklegra áfanga í tónfræði. Sigmar tók sér leyfi frá kennslustörfum vorið 2013 til að flytja til Bandaríkjanna.