BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK 2023
Það er loksins komið að því! Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík verður haldin í sextánda skipti dagana 19.-23. apríl 2023. Óhætt er að segja að hátíðin sé einn líflegasti bókmenntaviðburður ársins og bókaunnendur geta nú þegar farið að láta sig hlakka til.
Á hátíðinni gefst einstakt tækifæri til að heyra sögur og frásagnir heimsþekktra rithöfunda sem hingað eru komnir til þess að taka þátt í þessari veislu lesenda, höfunda, útgefenda, þýðanda og bókafólks. Dagskráin verður fjölbreytt og spennandi: fyrirlestrar, samtöl á sviði og upplestrar að ógleymdu hinu sívinsæla Bókaballi.
Til að horfa á dagskrána í beinu streymi, smellið hér. Eða veljið dag hér fyrir neðan.
Hér má sjá dagskrána í Norræna húsinu:
Fimmtudagur 20. apríl, sumardagurinn fyrsti
Kl. 11.00
Viðtal: Dina Nayeri í samtali við Birtu Björnsdóttur
Dina Nayeri flúði heimaland sitt, Íran, ung að aldri með móður sinni og bróður. Hún hefur skrifað á áhrifamikinn hátt um uppeldi sitt, líf móður sinnar, flótta, bið og aðlögun. Hér ræðir Dina við Birtu Björnsdóttur fréttamann á RÚV um kvennabyltinguna í Íran sem átti sér stað í fyrra, í kjölfar þess að ung kona lést í haldi lögreglunnar. Í framhaldi af því brutust út miklar óeirðir og alda mótmæla reið yfir landið.
Kl. 12.00
Viðtal: Lea Ypi í samtali við Jón Ólafsson
Í sjálfsævisögunni Frjáls: Æska í skugga járntjaldsins sem slegið hefur í gegn víða um heim, fjallar Lea Ypi um hinar mörgu þversagnir frelsis í vestrænum heimi. Hún byggir söguna á eigin uppvexti og æsku í Albaníu á tímum kommúnismans, segir frá falli einræðisríkisins og umbreytingu þess í kapítalískt samfélag, þegar ætla mætti að frelsi og lýðræði tækju að blómstra. Lea er starfandi stjórnmálafræðingur með einstaka og persónulega sýn á pólitískar sviptingar og frelsi. Hér er hún í samtali við Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Kl. 13.00
Viðtal: Åsne Seierstad í samtali við Halldór Guðmundsson
Åsne Seierstad er margverðlaunaður norskur blaðamaður og rithöfundur. Hún er þekktust fyrir frásagnir sínar af daglegu lífi á átakasvæðum. Meðal þekktustu verka hennar eru metsölubókin Bóksalinn í Kabúl, frásögn af dvöl hennar hjá afganskri fjölskyldu í Kabúl eftir fall Talíbana árið 2001, og Einn af okkur: Saga af samfélagi (2015), sem fjallar um Anders Breivik og árásina í Útey. Hér ræðir Åsne við Halldór Guðmundsson rithöfund um verk sín.
Kl. 14.00
Samtal: Vigdis Hjorth, Kim Leine og Kirsten Hammann
Hér ræða þrír norrænir höfundar um verk sín, sem öll tengjast norrænum veruleika á sinn hátt. Vigdis Hjorth hefur vakið mikla athygli fyrir skrif um fjölskyldu sína á undanförnum árum og hafa bækur hennar unnið til verðlauna og hlotið fádæma viðtökur, bæði í Noregi og annars staðar. Kim Leine hefur unnið hug og hjörtu lesenda með bókum sínum um Grænland en einnig í skrifum sínum um persónulegri málefni og hann gengur nærri sér í ýmsum skrifum sínum. Kirsten Hammann sækir nú Bókmenntahátíð heim í annað skiptið en hún er vinsæll danskur rithöfundur sem á 30 ára rithöfundarferli hefur gefið út fjölmörg verk. Hún hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í nýjustu bók hennar fjallar hún um afbrýðisemi. Jón Yngvi Jóhannsson lektor við Háskóla Íslands stýrir umræðum, sem fara fram á norsku og dönsku.
Kl. 15.00
Viðtal og upplestur: Gyrðir Elíasson í samtali við Halldór Guðmundsson
Hér á sér stað stórviðburður í íslensku menningarlífi þegar ein sterkasta rödd íslenskra samtímabókmennta, Gyrðir Elíasson, stígur á svið í fyrsta sinn í lengri tíma og ræðir við Halldór Guðmundsson um verk sín og feril. Íslenskir bókaunnendur vita hve sjaldgæft er að fá tækifæri til að hlýða á Gyrði ræða listina og lesa upp skáldskap, og láta þennan viðburð því varla framhjá sér fara. Samtalið fer fram á íslensku.
Föstudagur 21. apríl
Kl. 11.00
Viðtal: Pedro Gunnlaugur Garcia í samtali við Auði Jónsdóttur
Pedro Gunnlaugur Garcia vakti mikla og verðskuldaða athygli fyrir skáldsöguna Lungu, sem kom út í lok árs 2022. Fyrir bókina hlaut Pedro íslensku bókmenntaverðlaunin, en hann hefur áður gefið út bókina Málleysingjarnir. Sagt er að bækur hans marki nýjan tón á íslenskum bókamarkaði, en Pedro nýtir sér töfraraunsæi í skrifum sínum á áhrifamikinn hátt. Hér ræðir þessi áhugaverði höfundur um líf sitt og list við Auði Jónsdóttur, rithöfund.
Kl. 12.00
Viðtal: Alexander McCall Smith í samtali við Helgu Soffíu Einarsdóttur
Helga Soffía Einarsdóttir þýðandi spjallar við skoska rithöfundinn Alexander McCall Smith um höfundarverk hans og ævi. McCall Smith fæddist í Suður-Rhódesíu sem er nú Zimbabve og á að baki langan rithöfundarferil og fjölda bókaflokka sem njóta gríðarlegra vinsælda meðal lesenda um allan heim.
Kl. 13.00
Spurt og svarað: Dina Nayeri: Hverjum er trúað?
Dina Nayeri flúði heimaland sitt, Íran, ung að aldri með móður sinni og bróður. Hún hefur skrifað á áhrifamikinn hátt um uppeldi sitt, líf móður sinnar, flótta, bið og aðlögun. Hér situr hún fyrir svörum um bók sína Vanþakkláta flóttamanninn undir yfirskriftinni Hverjum er trúað? Sigmundur Ernir Rúnarsson fjölmiðlamaður stýrir umræðum.
Kl. 14.00
Viðtal: Åsne Seierstad í samtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur
Norski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Åsne Seierstad er hér í samtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og fulltrúi UN Women í Afganistan um stöðu mála þar í landi, sérstaklega um stöðu kvenna og mannréttindamála almennt. Åsne Seierstad hefur dvalið í Afganistan og skrifaði um reynslu sína þar. Bóksalinn í Kabúl varð metsölubók víða um heim og nú, 20 árum eftir útgáfu hennar, er nýlega komin út bókin Afghanerne en í henni segir Åsne frá örlögum þessa lands í gegnum frásagnir af þremur einstaklingum. Ingibjörg Sólrún býr yfir mikilli þekkingu um Afganistan eftir störf sín í landinu fyrir UN Women og hefur einstaka innsýn í stöðu mannréttindamála og ástandið í Afganistan sem hún mun miðla hér og ræða við Åsne Seierstad um.
Kl. 15.00
Fyrirlestur: Boualem Sansal og staða rithöfunda í Alsír
Alsírski rithöfundurinn Boualem Sansal fjallar hér í fyrirlestri um stöðu mála í Alsír. Hvernig er að starfa sem rithöfundur þar í landi, eru höfundum settar miklar skorður í störfum sínum og hver er afstaða stjórnvalda? Hvernig hefur almenningur það í Alsír og hvernig birtast aðstæður þeirra í skáldverkum frá Alsír? Adeline D’Hondt, framkvæmdastjóri Alliance Française á Íslandi kynnir höfundinn. Fyrirlesturinn fer fram á frönsku en þýðingar á íslensku og ensku verða aðgengilegar.
Laugardagur 22. apríl
Kl. 9.00-11.30
Ráðstefna: International Trends in Translation and Right Sales
Alþjóðleg ráðstefna um útgáfumál og réttindasölu og hvaða tækifæri eru framundan á þeim vettvangi. Til máls taka Edward Nawotka ritstjóri tímaritsins Publishers’ Weekly, Cristina Gerosa útgáfustjóri hjá ítölsku útgáfunni Iperborea sem hefur gefið út fjölda íslenskra rithöfunda og Sherif Bakr útgáfustjóri hjá Al Arabi útgáfunni í Egyptalandi. Í pallborði verða Madlen Reimer frá S. Fischer í Þýskalandi, Martin Grae Jørgensen frá Turbine í Danmörku, Emma Raddatz frá Archipelago Books í Bandaríkjunum og Halldór Guðmundsson stjórnarformaður Forlagsins. Heiðar Ingi Svansson formaður Fíbút flytur ávarp og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, opnar ráðstefnuna. Kynnir er Porter Anderson, ritstjóri tímaritsins Publishing Perspectives.
Kl. 12.00
Viðtal: Colson Whitehead í samtali við Einar Fal Ingólfsson
Pulitzer-verðlaunahafinn og metsöluhöfundurinn Colson Whitehead hefur getið sér nafn sem einn mest spennandi höfundur samtímans. Bækur hans hafa slegið í gegn alþjóðlega, verið þýddar á fjölda tungumála og eru þekktar um heim allan. Hér ræðir Colson um skrif sín við Einar Fal Ingólfsson.
Kl. 13.00
Samtal: Jan Grue og Ewa Marcinek
Hvað er það að tilheyra samfélagi? Hvað þýðir það þegar talað er um inngildingu?
Hér ræða tveir höfundar um samfélagið sem þeir tilheyra og hvernig það blasir við þeim.
Norski höfundurinn Jan Grue hefur skrifað um eigið líf og reynslu sína af því að lifa með fötlun í samfélagi þar sem ekki er gert ráð fyrir frávikum. Ewa Marcinek er pólskur höfundur sem búsett er á Íslandi. Hún hefur beitt sér fyrir inngildandi bókmenntasamfélagi hérlendis svo eftir hefur verið tekið. Stjórnandi umræðu er York Underwood.
Kl. 14.00
Viðtal: Gonçalo Tavares í samtali við Francescu Cricelli
Portúgalski rithöfundurinn Gonçalo Tavares nýtur mikillar virðingar um heim allan. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og notið mikillar hylli. Skáldsaga hans, Jerúsalem, sem kölluð hefur verið ein af mikilvægustu bókum samtímans, er væntanleg á íslensku í þýðingu Pedro Gunnlaugs Garcia. Hér er höfundurinn í viðtali við Francescu Cricelli, sem skrifar formála íslensku þýðingu skáldsögunnar Jerúsalem.
Kl. 15.00
Viðtal: Jenny Colgan í samtali við Sólveigu Jónsdóttur
Jenny Colgan er drottning skvísubókmenntanna um þessar mundir og hana þekkja íslenskir lesendur vel. Bækur hennar hafa komið út í þýðingum hjá Angústúru og notið gífurlegra vinsælda, enda erfitt að finna notalegra lesefni. Hér er Jenny Colgan í viðtali við Sólveigu Jónsdóttur rithöfund. Hægt verður að leggja fram spurningar í lok samtalsins og panta sér high tea á veitingastaðnum Sónó í Norræna húsinu.
Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir. Dagskráin fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og víðar og hægt verður að fylgjast með í streymi líka. Heildardagskrá má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar HÉR.