BÆKUR OG BRJÁLUÐ FRÆÐI


16:00 - 17:30
Salur
Aðgangur ókeypis
Brjáluð fræði (e.Mad studies) er fræðasvið í mótun sem fjallar um sögu, menningu, pólitík, lifaða reynslu og baráttumál fólks sem skilgreinir sig sem „Mad”, „Psychiatric survivors”, notendur geðheilbrigðiskerfisins, fólk með reynslu af andlegum áskorunum og fleira. Brjáluð fræði, (e.Mad studies), eiga sér rætur í mannréttindabaráttu áttunda áratugarins þegar hópar fólks, beggja vegna Atlantshafsins, risu upp og börðust fyrir virðingu og réttlæti.
Orðið „Mad” í þessu samhengi er notað í umbreyttri merkingu, frá því að vera orð sem tengist skömm yfir í að tengjast stolti. Þannig hefur hugmyndin um „Mad Pride” þróast eins og „Gay Pride”.  Þýðing þessara orða „Mad” og „Madness” yfir á íslensku er enn í mótun.  Í dag notum við orðið „Brjálaður” yfir „Mad” og vísum þar bæði í það að vera „Brjálaður” og brjálaður af reiði.  Þess vegna kynnum við í dag Brjáluð fræði.
Bækurnar og rannsóknirnar sem kynntar eru á málþinginu tengjast lifaðri reynslu fólks af andlegum áskorunum.  Sú reynsla, skoðuð út frá sjónarhóli fólksins sjálfs, er eitt af viðfangsefnum Brjálaðra fræða (e.Mad studies).
DAGSKRÁ
Sjónarhorn gagnrýninnar kenningar á innleiðingu jafningjastuðnings og batamiðaðrar hugmyndafræði
Jafningjastuðningur hefur verið innleiddur í Geðþjónustu Landspítala í áföngum frá 2021. Þessi breyting felur í sér að fyrrum notandi geðheilbrigðisþjónustu verður starfsmaður deilda og eininga.  Rannsóknir sýna að erfitt getur reynst að innleiða jafningjastuðning þar sem innleiðing batamiðaðrar hugmyndafræði hefur ekki náð tilskildum árangri.  Í þessu erindi verður mannauðs breytingin skoðuð með sjónarhorni gagnrýninnar kenningar og geðheilbrigðiskerfið skoðað sem valdakerfi.
Nína Eck er félagsráðgjafi, teymisstjóri jafningja á LSH og jafningjaþjálfari.
Brjáluð fræði og rannsókn um bækur        
Um fræðilegt samhengi og uppruna Brjálaðra fræða (Mad studies) og rannsóknina „Upplifun fólks af því að gefa út sjálfsævisögulega bók um andlegar áskoranir”.
Gunnhildur Una Jónsdóttir er meistaranemi í fötlunarfræðum
Boðaföll: Nýjar nálganir í sjálfsvígsforvörnum
Í erindinu segir Fanney frá því hvernig bókin Boðaföll: Nýjar nálganir í sjálfsvígsforvörnum,  varð til og mótaðist í samvinnu nokkurra höfunda.  Hún mun lesa valda kafla úr bókinni. Höfundar Boðafalla eru Agla Hjörvarsdóttir, Fanney Björk Ingólfsdóttir, Harpa Sif Halldórsdóttir, Hrefna Svanborgar Karlsdóttir, Sigurborg Sveinsdóttir og Svava Arnardóttir.
Fanney Björk Ingólfsdóttir er meistaranemi í ritlist
Úr hæstu hæðum niður í dýpstu djúp: Um uppsprettur Lífið er staður þar sem bannað er að lifa og Hreinsunareldur.
Í erindinu fjallar Steindór stuttlega um tilurð bókanna Lífið er staður þar sem bannað er að lifa (Veröld 2023) og Hreinsunareldur, sem er væntanleg ljóðabók.  Hann les upp úr báðum verkunum, en í þeim fjallar Steindór um eigin glímu við erfiðar andlegar áskoranir.
Steindór J Erlingsson, líffræðingur og vísindasagnfræðingur