Andleg heilsa á tímum loftslagsbreytinga


19:30

Þegar við hugsum um loftslagsbreytingar þá er geðheilsa líklega ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. Við könnumst flest við slæm áhrif loftslagsbreytinga á tíðni skógarelda og fellibylja, hækkun sjávarmáls, bráðnun jökla, lífríki í sjó og á landi og útrýmingu dýrategunda.

Ljóst er þó að loftslagsbreytingar hafa líka mikil áhrif á geðheilsu. Loftslagsbreytingar liggja svo þungt á mörgum að hugtakið loftslagskvíði, sem þekktist ekki fyrir nokkrum árum, er nú sífellt meira notað til að lýsa þeim áhyggjum og erfiðu tilfinningum sem því fylgja.

Hvernig lýsir loftslagskvíði sér og hvernig á að bregðast við honum? Hvað er hægt að gera? Hver eru tengsl loftslagsbreytinga og geðheilsu?

Hugrún Geðfræðslufélag og Ungir Umhverfissinnar standa fyrir viðburðinum Andleg heilsa á tímum loftslagsbreytinga þar sem reynt verður að svara þessum spurningum.

Húsið opnar kl 19 og erindi hefjast kl 19.30.

• Hvernig má fást við loftslagskvíða?
Hulda Jónsdóttir Tölgyes og Sóley Dröfn Daviðsdóttir, sálfræðingar á Kvíðameðferðarstöðinni munu fjalla um loftslagskvíða sem meðal annars birtist í áhyggjum, kvíða, vonleysi og reiði. Farið er yfir hvernig draga megi úr áhyggjum og sterkum tilfinningum, þola við í óvissunni sem ríkir samfara því að taka ábyrgð og leggja sitt að mörkum til umhverfismála.

• Að lifa með loftslagskvíða
Eydís Blöndal, ljóðskáld, segir sögu sína af loftslagskvíða, hvernig hann hefur lýst sér og hvernig hún lifir með honum.

• Af stóra ljóta loftslagsúlfinum og öðrum sögum
Gró Einarsdóttur, doktor í félags- og umhverfissálfræði. Til að ná árangri í loftslagsmálum verðum við að hafa áhrif á skoðanir, viðhorf og hegðun sem flestra. Ein árangurríkasta samskiptaleiðin til að hafa eftirminnileg og varanleg áhrif á aðra er að segja þeim góða sögu. Þetta eru niðurstöður margra sálfræðirannsókna, en goðsögur, dæmisögur biblíunnar og Íslendingasögurnar bera þessum ævaforna sannleika ekki síður vitni. En hvaða loftslagssögur erum við að segja og hvaða loftslagssögur ættum við að segja?

• Hvað er svona hræðilegt við hamfarahlýnun?
Patricia Anna Þormar mun fjalla um tilraun sína til að skapa skemmtilega og lausnamiðaða umræðu um loftslagsmál og hvaða tækjum og tólum við getum beitt til að virkja okkur sjálf og aðra í baráttunni fyrir betra loftslagi.

Viðburðurinn verður haldinn á íslensku. Norræna Húsið er aðgengilegt fyrir hjólastóla. Vinsamlegast hafið samband ef þörf er á táknmálstúlkun, ritun á töluðu máli upp á skjá (í beinni) eða öðru sem tengist aðgengi á viðburðinn.

Áhugasamir um tengslin á milli geðheilsu og umhverfisverndar geta kynnt sér þau fyrir viðburðinn með því að hlusta á útvarpsþáttinn: Umhverfisvernd. Femínismi. Geðheilsa. Í þættinum ræðir formaður Hugrúnar, Kristín Hulda, þessi mál við formann Ungra Umhverfissinna, Pétur Halldórsson. http://bit.ly/gedheilsa