Æðardúnn & fleira furðulegt – ókeypis sumarnámskeið
10:00 - 13:00
*ATH AÐ FULLT ER Á NÁMSKEIÐIÐ*
Ókeypis sumarnámskeið fyrir 7 – 10 ára
Þema sumarnámskeiðis Norræna hússins í ár er innblásið af yfirstandandi sýningu hússins sem ber heitið: Tilraun- Æðarrækt. Sýningin er þverfagleg og fjallar um sambýli æðarfugla og manna. Börnin fræðast um þennan mikilvæga fugl og kynnast jafnframt því hvaða sköpun getur átt sér stað þegar hönnun, myndlist og tengingu við náttúruna er blandað saman.
Á útisvæði Norræna hússins er fuglafriðlendi og hægt er að fræðast um fugla þar með vettvangsferðum og í gegnum teikni æfingar. Sérfræðingar frá Grasagarðinum hafa útbúið sérstaka lífveruleit sem er miðuð við útisvæðið. Í gegnum lífveruleitina fræðast börnin um fuglalíf, plöntur og votlendið í Vatnsmýrinni. Þátttakendur kynnast einnig gróðurhúsi Norræna hússins, þar sem matjurtir og íslenskt grænmeti er ræktað í sumar. Hugtakið moltugerð verður kynnt í tengslum við hringrás náttúrunnar. Á barnabókasafninu stendur yfir gagnvirka barnasýningin Líf í geimnum og munu börn læra um plánetur, geimkapphlaupið og mikilvægi náttúrunnar á jörðinni í gegnum lestur, leik og föndur. Á námskeiðinu má því búast við fjölbreyttri efnisnotkun og óhefðbundinni nálgun á viðfangsefnin.
Nemendur eru beðnir um að taka með sér nesti daglega og fatnað sem hentar íslenskri sumarveðráttu.
Vinsamlegast skráið einstaklinga með því að senda nafn, kennitölu og símanúmer á netfangið: hrafnhildur@nordichouse.is.