15:15 Tónleikasyrpan.


15:15

FIMMTÁN TIL FIMMTÁN

FIMMTÁN TIL FIMMTÁN er yfirskrift tónleika í 15:15 tónleikasyrpunni í Norræna húsinu sunnudaginn 22. nóvember kl.15:15.
Flytjendur á tónleikunum eru Sigurður Halldórsson sem leikur á selló og Liwen Huang leikur á píanó.

Um tónleikana:

Hundrað ára og nýtt fyrir selló
Árið 1915 var gjöfult ár í tónlistarsögunni. Sérstaklega voru mörg verk samin sem mörkuðu tímamót á sviði einleiks- og kammertónlistar fyrir selló. Það ár samdi Kodály einleikssónötuna fyrir selló. Sónatan var fyrsta verkið fyrir einleiksselló í næstum 200 ár sem öðlaðist sess á tónleikaefnisskrám og jafnframt upphafið að ríkulegum arfi tuttugustu aldar tónlist fyrir selló með allri þeirri þróun á ýmis konar óhefðbundinni tækni og sífellt nýrri nálgun við hljóðfærið sem er þó í eðli sínu fundið upp og hannað á barokktímanum. Sama ár skrifaði Debussy sónötu fyrir selló og píanó. Verkið var gríðarlega framsækið, og er ekkert svo langt síðan það var flokkað með nútímatónlist víðast hvar í tónlistarháskólum. Það má kannski segja að með þessum tónleikum er gerð tilraun til að skila þessum verkum endanlega úr þeim flokki yfir í „períódu“ flokkinn.

Auk fyrrnefndra verka verður frumflutt á tónleikunum verkið Tatsachen eftir Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Hún stundar nám í tónsmíðum við Listaháskólann hjá Hróðmari I Sigurbjörnssyni og mun útskrifast með bakkalárgráðu næsta vor. Verkið er skrifað sérstaklega fyrir þessa tónleika þannig að efnisskráin hafi að geyma ferskt innlegg úr samtímanum.

Miðaverð er 2000kr og 1000kr fyrir öryrkja, eldri borgara og nemendur.

Sjá: https://www.facebook.com/events/1055379921180222/