Útisvæði

Íslenskt birki með norrænt blóð í æðum

Þar sem Vigdís forseti  Íslands (1980-1996) fór um landið til fundar við landsmenn sína hafði hún þann sið að gróðursetja þrjú birkitré á stöðum sem hún heimsótti; eitt fyrir drengi, eitt fyrir stúlkur og eitt fyrir ófæddu  börnin. Að gróðursetja tré er alþjóðlegt tákn um von og  fyrirhyggju og vilja til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. 

Í tilefni að barnamenningarhátíð 2025 var því ákveðið að gróðursetja nokkur tré við Norræna húsið. Þann 9. april 2025 gróðursetti Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku og loftslagsráðherra ásamt forstöðumönnum norrænu húsanna á Norðurlöndunum, 5 birki sunnan við tjörnina við Norræna húsið. Þetta voru ekki nein venjuleg íslensk birkitré. Þetta voru alveg sérstök yrki sem eiga norrænar rætur. Má segja að þetta séu birkitré með norrænt blóð í æðum.

Norðurlöndin standa alþjóðlega framarlega í kynbótum á nytjaplöntum.  Skógar eru til mikilla nytja á Norðurlöndum og uppspretta velsældar og vellíðan. Samstarf Norðurland um skógræktarrannsóknir (SNS)  og kynbætur á trjám á sér langa og árangursríka sögu og ein af mörgum stoðum fjölbreytts norræns samstarfs. Á Íslandi hefur Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur nýtt norrænt samstarf við kynbætur á íslenska birkinu og þróað ný yrki sem hafa fengið nöfnin Embla, Kofoed, Dumba og Hekla. 

Í hverju felast kynbætur? Bestu tré úr ræktun eru valin til undaneldis og afkvæmaprófuð. Þannig eru búnir til erfðahópar, svo nefnd yrki. Fyrsta íslenska yrkið sem ræktað hefur verið með aðferðum kynbótafræðinnar er yrkið Embla, eins og segir hér að ofan. Emblahefur reynst jafnbest alls erfðaefnis sem reynt hefur verið með samanburðartilraunum. Yrkið hefur verið notað jafnt í þéttbýli og almennri skógrækt um allt land. Í framhaldi af þeirri ræktun hafa verið gerðar tilraunir með erlent birki sem almennt hefur reynst illa.

Embla

Fyrsta yrkið sem Þorsteinn þróaði með danskri kynbótaaðferð fyrir liðlega 30 árum gengur undir nafninu „Embla“. Almennt er íslenska birkið frekar bogið og kræklótt. En Embla, sem á sér sérvalda foreldra, vex með beinan og ljósan stofn og stendur vel undir nafninu „hið bjarta tré“ (björk eða björt).

Kofoed

Í ljós hefur komið að norskt birki sem reynst hefur illa til ræktunar í Íslandi hefur nýst vel í víxlanir við Emblu. Víxlun af þessu tagileiddi til yrkisins Kofoed sem var svo nefnt til heiðurs fyrsta skógræktarstjóra Íslands, A.F Kofoed-Hansen á aldarafmæli Skógræktar ríkisins árið 2007.

Dumba

Þessi góði árangur Kofoed leiddi til frekari tilrauna með víxlanir með notkun finnsks yrkis með rauðum sumarlit. Tilraunin leiddi til þróunar yrkisins Dumba, sem er algengt nafn á dumbrauðum kúm. Þessi árangur hefur varð til þess að hafist var handa með víxlanir þar sem notast var við tvær nýjar tegundir sem erfiðlega hefur gengið að rækta hérlendis, svonefnt hengibirki (Betula pendula) og nepalbirki (Betula utilis jaquemonti) frá Asíu

Hekla

Rauðblaða, hvítstofna og hraðvaxta yrki með uppruna í fjórum birkitegundum frá þremur löndum, er nú komið í prófun víða um land og reynist vel. Það ber nafnið Hekla og er í fjölgun og sölu í Finnlandi með svonefndri vefjaræktun (með vefjaræktun verða öll trén af sömu arfgerð) en hin yrkin þrjú eru fræræktuð. Hekla er fyrsta og enn eina íslenska yrkið sem selt er í ræktunarstöðum utan Íslands.

Gróðurhúsið

Gróðurhús Norræna hússins er nýtt á ýmsa skemmtilega vegu, hér má sitja og njóta kaffibolla, lesa bók eða borða hádegismat. Hér höldum við tónleika, námskeið og listasýningar.

Norræna húsið ræktar í gróðurhúsinu og garðinn sinn í samstarfi við samtökin W.O.M.E.N.„Women Of Multicultural Ethnicity Network in Iceland“ og NordGen, sem er sameiginlegur genabanki Norðurlanda og þekkingarsetur um erfðaauðlindir sem eru mikilvægar í landbúnaði og skógrækt.

Lesa meira um W.O.M.E.N. og Heimsyndisgarðinn hér.

Skálinn við Birkitrén

Norræna húsið opnar SKÁLANN; sjálfbærann og margbreytilegan skála sem getur hýst litla viðburði af öllu tagi. Skálinn hefur margskonar möguleika fyrir alls kyns útiviðburði sem tengjast fjölbreyttri dagskrá Norræna hússins.

Skálinn er sveigjanlegur vettvangur við Norræna húsið og skapar aðstöðu fyrir fjölbreytta, sjálfbæra og þverfaglega viðburði.

Styrktaraðilar

KEBONY — BYKO — AUÐLIND

Baldur Helgi Snorrason

barkstudio.is

Baldur Helgi Snorrason er fæddur í Reykjavík árið 1986. Hann hefur rekið hönnunarstofuna Bark frá því hann útskrifaðist með meistaragráðu í arkitektúr frá Konunglegu arkitektaakademíunni í Kaupmannahöfn árið 2016. Hann hefur unnið með mörk arkitektúrs, hönnunar og myndlistar á ýmsum sviðum. Fjölbreytt verkefnaflóra síðustu ára endurspeglar þverfaglega nálgun Baldurs, en meðal nýlegra verka má nefna: Einkennandi og gagnvirka speglainnsetningu sem markaði opnun Listahátíðar Reykjavíkur 2020 og Sjávarmál, hljóðskúlptúr sem vann nýlega samkeppni um nýtt útilistaverk í Reykjavík.

Smiðir:
Ragnar Már Nikulásson
Sigmar Freyr Eggertsson

Friðlandið í Vatnsmýrinni

Friðlandið í Vatnsmýrinni er einstakt. Þar getur fólk notið villtrar náttúru og fuglalífs í miðri Reykjavíkurborg.

Árið 2013 var stofnaður hópurinn “Hollvinir Tjarnarinnar” – óformlegur hópur innan Fuglaverndar en tilgangur hópsins er að virkja krafta þeirra áhugamanna sem tilbúnir eru að leggja góðu málefni lið, að hlúa að lífríki Tjarnarinnar og friðlandsins í Vatnsmýrinni.

Árlega skipuleggur hópurinn tiltekt í friðlandinu í Vatnsmýri, venjulega í apríl. Þá koma sjálfboðaliðar og tína rusl, grisja sjálfsáðan trjágróður og fleira til að gera svæðið að aðlaðandi varpsvæði fyrir endur og mófugla.

Vefsíða Hollvina Tjarnarinnar