Sumartónleikar
Fjórða tónleikaröð Norræna hússins verður með óhefðbundnu sniði í ár vegna covid-19 faraldursins. Við munum bjóða upp á þrjú kvöld með framúrskarandi íslenskum tónlistarmönnum og færum fjóra tónleika til næsta árs. Fjórir vel þekktir tónlistarmenn frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi ætla fyrstu þrjá mánuði næsta árs að lýsa upp skammdegið með sumartónleikum.
Takmarkað sætaframboð og sóttvarnarlög
Í ljósi rýmkunar á samkomubanni seljum við 50 miða á hvora tónleika og tökum 40 sæti úr sölu til að auka andrými í salnum. Tónleikarnir eru klukkustundarlangir án hlés.
Tónleikaröðin fer fram á miðvikudögum kl. 21.00. Aðgangseyrir er 3000 kr og 1.500 kr fyrir námsmenn og eldri borgara.
Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson
Miðvikudaginn 22. júlí kl. 21.
Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson komu einnig fram á tónleikaröðinni í fyrra og léku þá fyrir troðfullu húsi. Við ákváðum að endurtaka leikinn, fyrir þá sem þurftu frá að hverfa en ekki síður fyrir hina heppnu sem komust inn enda er óhætt að segja að tónlist Ólafar og Skúla er bæði vönduð og vanabindandi. Ólöf er einstök söngkona, lagasmiður og fjölhæfur hljóðfæraleikari. Skúli er skapandi bassaleikari og hefur samið fjölda óvenjulegra tónverka.
Ellen og Eyþór
Miðvikudaginn 12. ágúst kl. 21.
Á tónleikum Ellenar Kristjánsdóttur söngkonu og Eyþórs Gunnarssonar píanó- og hljómborðsleikara verða á efnisskránni íslensk sönglög, sálmar og ýmis uppáhaldslög söngkonunnar. Ellen hefur gefið út margar plötur í eigin nafni en einnig átt frjótt samstarf við annað tónlistarfólk, þar á meðal Magnús Eiríksson og Mannakorn. Eyþór hóf feril sinn með hljómsveitinni Mezzoforte á árinu 1977. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika og átt þátt í gerð um 200 hljómdiska í samstarfi við helstu tónlistarmenn þjóðarinnar. Hér gefst einstakt tækifæri að heyra og sjá þetta framúrskarandi listafólk í fallegum tónleikasal Norræna hússins.
Svavar Knútur og Kristjana Stefáns
Miðvikudaginn 19. ágúst kl. 21.
Söngvaskáldið ástsæla Svavar Knútur tróð upp fyrir fullu húsi á tónleikaröðinni í fyrra. Okkur er sannkölluð ánægja að bjóða honum að spila aftur í ár. Honum til trausts og halds verður Kristjana Stefáns, ein besta djass- og blússöngkona þjóðarinnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau Svavar og Kristjana vinna saman. Árið 2011 gáfu þau út saman plötuna Glæður og í fyrra fóru þau saman í tónleikaferð um landið. Tónlistarlegur bakgrunnur þeirra er frekar ólíkur sem reynist vera mikill styrkur í samstarfinu. Enginn vafi er á því að okkar bíða í senn töfrandi og seiðandi tónleikar, einstakir í sinni röð.