Norræni bókagleypirinn kynnir nýtt myndabókaefni

Á hverju ári býr Norræni bókagleypirinn til nýtt stuðningsefni við myndabækur sem eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í áhugaverðum bókum þessa árs er fjallað um allt frá kjarnorkustyrjöld til ævintýralegra sumardaga með fjölskyldunni.

Á heimasíðu Norræna bókagleypisins www.bokslukaren.org/is/ er hægt að hlaða niður glænýju stuðningsefni við fimm tilnefndar myndabækur ársins – algjörlega ókeypis.

Efnið er ætlað þeim sem hvetja til lestrar, svo sem kennurum, leikskólakennurum og bókavörðum, sem og öllum sem leikur forvitni á að nálgast sameiginlegan norrænan tungumála- og myndabókafjársjóð okkar á lifandi og kennslufræðilegan hátt, óháð því á hverju tungumálanna bækurnar eru skrifaðar.

Ef þig langar að sökkva þér í frásögn þar sem atburðarásin er að mestu borin uppi af skynrænum og hugljúfum myndum, þá ættirðu að kynna þér bókina Ingen utom jag eftir Söru Lundberg. Með efninu sem tengist bókinni fá börn tækifæri til að túlka söguna og halda áfram að segja frá því sem þau halda að sé að gerast á þessum töfrandi sumardegi.

Bókin Det som finnes og det som er borte eftir Kaiu Dahle Nyhus fjallar um hvernig flótti undan stríði hefur áhrif á daglegt líf fólks – frá sjónarhorni barnsins. Með þessu efni, táknum og myndum, er hægt að brydda upp á mikilvægum samtölum um ástand heimsins í dag.

Í Wonga og rævene eftir Molly Wittus fáum við áhugaverða innsýn í það sem getur gerst þegar við opnum heimili okkar og hjörtu fyrir nýju fólki – og í þessu tilviki – refum. Spurningarnar í efninu leiða til ígrundunar vekja okkur til umhugsunar um hvernig við bregðumst við hinu óþekkta og ekki síst hvernig við aðlögumst hvert öðru.

Efnið við bókina Chop Chop – en tapper jordbos berättelse eftir Lindu Bondestam gefur okkur kost á að kljást við heimspekilegar spurningar við hæfi barna um fjölgun vélmenna og hlutverk þeirra í samfélaginu, og hvaða áhrif það getur haft á okkur mannfólkið.

Í Kesän ainoa kaunis päivä (Eina fallega degi sumarsins) eftir Mariu Vilja fylgjumst við með fjölskyldu á ferðalagi og þeim skringilegu tilfinningum og samskiptum sem geta skapast í hversdagslegu amstri. Efni Norræna bókagleypisins veitir innblástur til að túlka og greina tilfinningalíf persónanna með börnunum út frá myndunum.

Stuðningsefnið er aðgengilegt á að minnsta kosti fimm norrænum tungumálum og inniheldur ávallt ferns konar skapandi verkefni sem eru aðlöguð aldurshópum á bilinu 0–12 ára. www.bokslukaren.org. Við gefum þeim sem starfa við að hvetja til lesturs og forvitnum lesendum kost á að sökkva sér í undraveröld norrænna myndabóka með nýju stuðningsefni á www.bokslukaren.org/is/. Norræna menningargáttin í Helsinki átti frumkvæði að verkefninu og hefur umsjón með því en það er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni.

Hafðu samband:

Jana Šajin

Verkefnisstjóri

jana.sajin@nkk.org

+358 50 346 0071