Höfundakvöld með Viveca Sten – Streymi


19:30

 Höfundakvöld með Viveca Sten

Frá haustinu 2015 hefur Norræna húsið staðið mánaðarlega fyrir höfundakvöldum með spennandi norrænum höfundum. Að þessu sinni er gestur höfundakvöldsins lögfræðingurinn  og glæpasagnahöfundurinn Viveca Sten. Viðburðurinn byrjar kl. 19:30 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Tinna Ásgeirsdóttir stýrir umræðu sem fer fram á skandinavísku. Aðgangur er ókeypis.

Norræna húsið streymir frá viðburðinum hér: Meira um streymið.

Viveca Sten (1959) er sænskur rithöfundur og lögfræðingur. Hún hefur skrifað fræðibækur innan lögfræði en þekktust er hún þó fyrir glæpasögur sínar um Morðin í Sandhamn. Sögusviðið er sænski Skerjagarðurinn þar sem lögreglumaðurinn Thomas Andreasson hjá lögreglunni í Nacka fæst við rannsókn mála ásamt vinkonu sinni, lögfræðingnum Noru Linde. Alls hafa átta bækur komið út í bókaflokknum, þar af fimm á íslensku. Viveca Sten hefur selt yfir 3 milljónir eintaka af bókum sínum á heimsvísu en þær hafa verið þýddar á yfir 20 tungumál. Fyrstu þrjár sögurnar um Morðin í Sandhamn hafa verið kvikmyndaðar með Jakob Cedergren og Alexöndru Rapaport í aðalhlutverkum. Á íslensku hafa komið út bækurnar Í hita leiksins (2016) Í nótt skaltu deyja (2015) Syndlaus (2015) Í innsta hring (2014) og Svikalogn (2013).

„Bækur Vivecu Sten, sem gerast að miklu leyti í skerjagarðinum utan við Stokkhólm, lýsa á fjölbreyttan hátt aðstæðum og lífi venjulegs fólks sem lifir í nánu samneyti við náttúruöflin á mörkum hafs og lands, sögusvið sem Íslendingar þekkja vel að fornu og nýju. Stundum eru lýsingar hennar á umhverfinu svo sterkar að maður getur nánast fundið sjávargoluna í andlitinu og saltbragðið á tungunni!“  Sigurður Þór Salvarsson þýðandi.

 

AALTO Bistro

Veitingastaðurinn AALTO Bistro í Norræna húsinu hefur opið fyrir matargesti í hléi og fyrir höfundakvöldin og býður upp á ljúffengan kvöldverð, smárétti og aðrar veitingar úr fyrsta flokks hráefni. Tilvalið að njóta listilegra veitinga áður en andinn er nærður á höfundakvöldinu. Borðapantanir

Ljósmyndari myndarinnar: Thorn Ullberg