Fánahylling
9:00 - 10:00
Í tilefni af 50 ára afmæli Norræna hússins veitist okkur sú ánægja að bjóða vinum og velunnurum hússins að vera viðstaddir er fánar verða dregnir að húni ásamt sameiginlegum morgunsöng í flutningi Cantoque Ensamble.
Föstudagur 24. águst kl. 9:00 – 10:00 í garðinum
Allir velkomnir
Boðið verður upp á morgunkaffi
Kær kveðja
Mikkel Harder Munck-Hansen
Forstjóri Norræna hússins
Hátt í þriðja hundrað manns voru við vígsluhátíð Norræna hússins 1968.
Húsið kostaði 45 milljónir króna.
Mikið fjölmenni var við vígslu Norræna hússins og sagði Ivar Eskeland forstöðumaður hússins í ávarpi að um helmingi fleiri erlendir gestir hefðu séð sér fært að koma en búist var við. Munu hátt í þriðja hundrað manns hafa verið við athöfnina sem stóð frá klukkan hálf tíu um morguninn til klukkan langt gengin átta um kvöldið.
Athöfnin hófst með því að háttsettir embættismenn frá öllum Norðurlöndunum drógu fána þjóða sinna að hún. Síðan opnaði Alvar Aalto, arkitekt hússins, dyr þess og bauð gestum að ganga inn. Við Við athöfnina voru fluttar ellefu ræður og töluðu þar meðal annarra forseti Íslands, Kristján Eldjárn, Halldór Laxness rithöfundur, Kjeld Bondevik kirkju- og menntamálaráðherra Noregs, Erik Eriksen fyrrverandi forsætisráðherra Dana og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Á milli ræðuhalda flutti strengjakvartett verk eftir Jón Leifs og Lúðrasveit Reykjavíkur spilaði utandyra.
Að því loknu var snæddur hádegisverður að Hótel Sögu og var þar á borðum íslenskt hangikjöt og skyr. Meðan á borðhaldi stóð töluðu Grels Teir iðnaðarmálaráðherra Finna og Ragnar Edeman landshöfðingi Svíþjóðar.
Að borðhaldi loknu var aftur haldið að Norræna húsinu þar sem komið hafði verið upp Norrænni listiðnaðarsýningu. Þar þakkaði Ivar Eskeland fyrir góðar gjafir sem húsinu hafði borist. Meðal þeirra má nefna vandaðan flygil, flugmiða frá bæði íslensku flugfélögunum og SAS, fjölda málverka og höggmynd frá Reykjavíkurborg eftir Sigurjón Ólafsson. Þá bárust húsinu margar peningagjafir m.a. 70 þúsund krónur til bókakaupa.
Klukkan fimm hófst svo kvöldvaka á vegum Norræna hússins í Þjóðleikhúsinu og stóð hún til að verða átta. Komu þar fram skemmtikraftar frá öllum Norðurlöndunum með upplestur, ballett, söng og hljóðfæraleik.
Morgunblaðið 25.08.1968
Vísir, 26.08.1968
Sögusýningin 50 minningar opnar kl. 1o í tilefni dagsins
Sjá: 50 minningar – Sögusýning Norræna hússins